Krónuleikurinn

Skiptið hópnum í tvö til þrjú lið eftir fjölda.  Látið hvert lið mynda röð.  Krakkarnir eiga svo að setjast niður öxl við öxl og snúa baki í hitt liðið.  Haldast svo í hendur og allir loka augunum nema sá eða sú sem er fremst/ur í röðinni.  Leiðtoginn er fremstur með krónu og hann kastar henni upp og ef skjaldamerkið kemur upp, á sá fremsti að senda skeyti, með því að kreista höndina sessunautar síns, sem síðan gengur út á enda. Þegar  sá eða sú sem er á endanum fær skeytið á hann/ hún að grípa flösku sem er staðsett 1-2 metrum frá endanum.  Liðið sem nær flöskunni fær öftustu manneskjuna færða fremst.  Ef einhver sendir skeyti þegar fiskurinn kemur upp og nær í flöskuna þá er fremsta manneskja í því liði færð aftast.  Markmiðið er að ná að fara heilan hring, þannig að sá eða sú sem byrjaði fremst endi fremst, það lið sem er fyrst að klára hringinn vinnur. Í þessum leik er mikilvægt að algjör þögn ríki og allir haldi augunum lokuðum.  Ef þær reglur eru brotnar er hægt að refsa með því að senda fremsta mann aftast.

Senda skeyti

Einn þátttakandi er í miðjunni. Þátttakendur sitja í hring og haldast í hendur.  Veljið einn til að senda skeyti.  Hann velur hverjum hann vill senda.  Hann segir upphátt frá því hver á að fá skeytið.  Skeytið er sent með því að kreista hönd annars þeirra sem situr við hliðina. Um leið og hann hefur sent skeytið af stað á hann að tilkynna það upphátt.  Þegar sá sem skeytið var ætlað hefur fengið það lætur hann vita af því . Sá sem er í miðjunni á að reyna að finna skeytið og stöðvað það.  Ef sá sem í miðjunni sér einhvern senda skeyti þá fer sá sem mistókst í miðjuna.