Siðareglur
vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar
Inngangur
Siðareglur þessar ná til vígðra þjóna íslensku þjóðkirkjunnar og starfsfólks í launuðum sem ólaunuðum störfum innan sókna og stofnana kirkjunnar. Þær eru ætlaðar til stuðnings og leiðbeiningar í þjónustu við Guð og menn.
Grundvallarregla mannlegra samskipta er gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.” (Matt. 7,12)
Starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar hafa þá reglu umfram allt að leiðarljósi.
Reglur
Starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar eru fulltrúar kirkju sinnar og gæta þess í starfi og einkalífi að hafa virðingu hennar í heiðri og leitast við að bera fagnaðarerindi Krists vitni í orði og verki með því að:
- Gera sér far um að mæta hverjum einstaklingi í kærleika Krists með virðingu eftir því sem skilningur og samviska bjóða hverju sinni og láta sér annt um líðan og velferð annarra.
- Gæta vandvirkni, samviskusemi og heiðarleika í starfi og að orð og athæfi samrýmist starfi og umhverfi, stað og stund.
- Virða þagnarskyldu um hvað eina sem þau verða áskynja í starfi og leynt skal fara.
- Gæta þess að vanvirða ekki tilfinningar og tiltrú skjólstæðinga sinna.
- Fara ekki í manngreinarálit og veita þeim kirkjulega þjónustu sem leita eftir henni.
- Þekkja og virða takmörk sín og sækja sér faghandleiðslu og sálgæslu.
- Misnota aldrei aðstöðu sína eða ógna velferð skjólstæðings, svo sem með óviðeigandi hegðun, orðfæri, viðmóti, kynferðislegri eða annars konar áreitni.
- Minnast þess að mörk einstaklinga eru mismunandi, svo sem að snerting getur auðveldlega misskilist eða valdið óþægindum.
- Stofna ekki til óviðeigandi sambands við skjólstæðing.
- Leita eftir símenntun, fræðslu og uppbyggingu í trú og kristnu samfélagi.
- Sýna ábyrgð og trúmennsku í meðferð fjármuna.
- Gæta hófs í umgengni við áfengi og vera öðrum fyrirmynd í þeim efnum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi og í ferðum með börnum og ungmennum er óheimilt að neyta áfengis og annarra vímuefna.
- Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun.
- Vera ávallt upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis.
- Vera meðvitað um að þau hafi sterkari stöðu en barnið sem þau vinna með. Ekki má undir nokkrum kringumstæðum misnota aðstöðu sína.
- Gæta varfærni og hlífðar í samskiptum við börn og skjólstæðinga í viðkvæmum aðstæðum.
- Sýna árvekni gagnvart einelti, áreitni og annarri óviðeigandi hegðun.
- Notfæra sér ekki vitneskju eða tengsl sem verða til á vettvangi þjónustunnar í ábata- eða hagsmunaskyni.
- Gæta þess að eiga gott samstarf við samstarfsfólk og yfirmenn, stuðla að eindrægni og samhug og gæta virðingar í umtali.
- Sýna jafnan trú og siðum annarra umburðarlyndi og forstöðumönnum og prestum annarra trúfélaga og kirkjudeilda virðingu.
- Gæta þess að vera málefnaleg og gæta varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.
Almenn ákvæði
Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins.
Að 18 ára aldri er einstaklingur skilgreindur sem barn. Óheimilt er að ráða til starfa fólk til að sinna börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna kynferðisbrots, skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um kynferðisbrot. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm á síðastliðnum fimm árum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þessi ofangreindu ákvæði ná einnig til sjálfboðaliða sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri.
Yfirmenn vígðra þjóna og starfsmanna þjóðkirkjunnar eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna ofangreindra brota, að fengnu samþykki hans. Á það við bæði um starfsfólk sem starfar með börnum og unglingum svo og við önnur störf hjá sóknum og stofnunum kirkjunnar hvort sem um launuð eða ólaunuð störf er að ræða.
Heilræði
fyrir fólk sem starfar með börnum og unglingum
Hafðu í huga í starfi með börnum og unglingum að …
- þú ert í föruneyti barnsins eða unglingsins á leið þess að því að verða fullvaxta manneskja. Að þú ert samferða og það felur ekki í sér að vita alltaf betur eða geta meira, heldur hlusta og vera nálægur.
- það getur haft mikið að segja í starfi að hafa skopskyn, en það má aldrei vera gróft, tvírætt eða niðrandi fyrir aðra.
- það er ekki góð hugmynd að sjá ein/n um samverur með börnum eða unglingum eða fara ein/n með hóp í ferðalag. Hafðu vit fyrir yfirmönnum þínum ef þeir ætla að senda þig eina/n.
- börnin vilja að þú sért hinn fullorðni en taktu virkan þátt í þeirri dagskrá sem er í boði og sýndu henni áhuga.
- eiga gott samstarf við foreldra og forráðamenn og upplýsa þá um starfið og það sem þar fer fram.
- stundum er betra að standa fyrir utan leiki sem fela í sér mikla snertingu.
- mikilvægt er að gefa af sér en það merkir ekki að starfsmaður geri börn og unglinga að trúnaðarmönnum sínum.
- vera vel undirbúin/n fyrir samverur. Börnin sjá fljótt ef starfsmaður er óundirbúinn.
- helgihaldiðið er mikilvægur þáttur í starfinu og oft þarf að laga það að þeim hópi sem unnið er með. Mundu að það sem barnið upplifir og lærir í samræðum skilar meiru en langar ræður.
- þekkja og virða takmörk þín og leita þér hjálpar ef illa gengur. Margt getur komið uppá í starfinu sem krefst mikils af þér. Hikaðu ekki við að leita ráða hjá þeim sem þú treystir.
- sjaldnast fáum við að velja samstarfsfólkið okkar. Lykillinn að góðu samstarfi er að ræða þau vandamál sem upp koma og vera tilbúin/n að líta í eigin barm.
- þú ert aldrei ein/n á ferð, Jesús er alltaf með í för. Mundu eftir því að þú og Guð þurfið tíma saman. Mikilvægt er að biðja fyrir starfinu og vera í samfélagi við annað trúað fólk