Fjarfundir 

Fjarfundir eru mikilvæg og skemmtileg viðbót við æskulýðsstarfið.  Á tímum Covid-19 er eru þeir líka nauðsynlegir til þess að halda úti æskulýðsstarfi.

Hér á síðunni erum við með verkfærakistu þar sem hægt er að finna leiki, verkefni og öpp. 

Á fjaræskulýðsfundi er góð regla er að byrja á spjalli, svo kemur verkefni eða leikur og enda svo á stuttri hugleiðingu/sögu og bæn. Net fundir eru almennt styttri en það þarf ekki að þýða að gæðin séu minni. 

Ef fundurinn krefst föndurs eða er hugsaður fyrir yngri hópa er oft gott að senda póst fyrir fram á foreldrana, með upplýsingum um hvað á að gera á fundinum svo hægt sé að hafa blöð, liti, skæri og þessháttar tilbúið. Þetta getur líka verið góð leið til þess að virkja foreldrana. 

            

Heilræði fyrir þá sem bjóða upp á fjaræskulýðsfundi

Hér eru nokkrir punktar til að hafa í huga fyrir þá sem vilja nýta sér fjarfundi í æskulýðsstarfinu. Undirbúningur er jafn mikilvægur fyrir fjarfundi eins og fyrir venjulega æskulýðsfundi. Við þurfum einnig að huga að því að fjarfundirnir okkar séu öruggur staður fyrir þátttakendur og framsetning þar skiptir miklu máli. Þetta samskipta form felur í sér nýjar áskoranir en í því eru líka tækifæri.  

Umfram allt þurfum við alltaf að hafa í huga að við erum að vinna með börnum og unglingum, þar af leiðandi er nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Fyrir fjarfund er mikilvægt að umsjónarmenn starfsins hittist og ræði hvað þeir vilja fá út úr þessum fundi og hvernig á að nálgast það 
  • Það er góð regla að prufu keyra verkefnið/leikinn/fundinn með leiðtogum áður en þátttakendum er boðið með. Þannig má á einfaldan hátt oft komast hjá tæknilegum örðugleikum. 
  • Munið að hafa efni fundarins í takt við aldur þátttakenda. 
  • Þegar við erum að halda fundi í gegnum tölvuna, erum við oft staðsett heima hjá okkur. Leiðum hugan að því hvað er í mynd á meðan á fundinum stendur og látum aðra heimilismeðlimi vita af því að við séum á fjar æskulýðsfundi. Þetta gerum við til að tryggja að þátttakendur í fjaræskulýðsfundunum verið ekki fyrir/vitni að óþægilegri eða ósæmilegri reynslu á meðan á fundinum stendur. 
  • Minnið þátttakendur á að tengjast fundunum í gegnum WiFi þar sem 4G tengingar geta verið dýrar. 
  • Séu hóparnir stórir þarf að hafa í huga hvernig samskipti eigi að fara fram, oft getur verið gott að biðja alla sem ekki eru að tala um að vera á mute. Eða notið spjall möguleika forritsins til þess að koma skilaboðum áfram. 
  • Við skulum aldrei bjóða upp á aðstæður þar sem það er bara einn leiðtogi og einn þátttakandi. Alltaf skulu að lágmarki 2 leiðtogar vera á staðnum. Sé því viðkomið er best ef þrír leiðtogar eru tengdir til að tryggja lágmarksfjölda leiðtoga, slitni sambandið hjá einum þeirra. Sé leiðtogi í þeirri stöðu að standa allt í einu upp einn með fundinn, skal fundinum lokið þegar í stað. 
  • Það getur verið góð regla að hvetja þátttakendur til að vera ekki  heyrnartól, svo forráðamenn heyri hvað er um að vera og geti fylgst með starfinu.
  • Við þurfum að muna að við erum komin inn á heimili þátttakenda. Það sem við kunnum að sjá og heyra er einkamál og er ekki okkar að tala um við aðra nema það snúi að ofbeldi eða vanrækslu þátttakenda. Þá þarf að setja það í réttan farveg.
  • Þátttaka í fjarfundum ætti alltaf að eiga sér stað með vitun forráðamanna.
  • Byrjið fundinn að lágmarki 5 mínútum fyrir auglýstan fundartíma til að gefa öllum tækifæri á að komast inn á fundinn og greiða úr tæknimálum.
  • Best er að senda tengil á fundinn þegar leiðtogar eru tilbúnir að hefja hann. Hægt er að nota sms kerfi ÆSKÞ eða email. Varist að nota opna miðla eins og facebook, Instagram eða heimasíðu kirkjunnar.
  • Það má ekki taka upp fundina nema með skriflegu leyfi forráðamanna. Hvorki við né þátttakendur mega taka skjáskot eða myndir af fundargestum. Þetta er vegna persónuverndarsjónarmiða.
  • Munið að auglýsa fundina vel, helst með viku fyrirvara og reynum að hafa þá á hefðbundnum tíma. Þá er mikilvægt að passa að fundirnir séu ekki of langir.
  • Komi upp atvik á meðan á fundunum stendur sem vekja áhyggjur um velferð barna skal brugðist við líkt og ef atvikið hefði komið upp á venjulegum fundi.
  • Höfum í huga að við erum ennþá starfsmenn kirkjunnar okkar, þrátt fyrir að við séum að senda út fundi heiman frá okkur. Hegðun og framkoma leiðtoga á ekki með neinu móti að vera öðruvísi á netinu en hún væri á hefðbundnum æskulýðsfundi. 

 

Tilkynning vegna gruns um vanrækslu eða ofbeldi.  

Ef þú hefur áhyggjur af þátttakanda í starfinu hjá þér, vinsamlegast hafðu samband við þinn yfirmann eða framkvæmdastjóra ÆSKÞ til að fá frekari leiðbeiningar. Ef atvikið er alvarlegt og krefst tafarlausar úrlausnar hafðu þá samband við barnaverndar yfirvöld í þínu sveitarfélagi eða 112 .

 

Hvað miðla og forrit er hægt að nota 

Fyrir fjarfundi má bæði nota Microsoft teams eða Zoom. Sé Zoom notað mælum við með að kirkjunnar kaupi sér áskrift, en þó er hægt að halda allt að 40 mínútna fundi frítt hjá þeim. Bara sá sem heldur fundinn þarf að hafa forritin upp sett í tölvunni. Þátttakendur geta tekið þátt með því að fylgja link. 

Sjá:

www.zoom.us

https://www.microsoft.com/en-ww/microsoft-365/microsoft-teams/teams-for-home

www.discord.com – (Athugið að þegar fundi lýkur þarf að muta rásina)

 

Vinsamlegast athugið að stilla forritið á eftirfarandi hátt:

  •       not allow recording. 
  •       allow only signed-in users to join. 
  •       turn off file transfer. 
  •       turn off annotation. 
  •       prevent participants from screen sharing. 

Þegar fundurinn er hafinn:

  •       Læsið fundinum.
  •       Fjarlægið þátttakendur sem eru truflandi.
  •       Fjarlægið þátttakendur sem eiga ekki að vera á fundinum.  
  •       Komið í veg fyrir að þátttakendur sem búið er að vísa frá geti skráð sig inn aftur. 

Á meðan á fundinum stendur er hægt að gera eftirfarandi: 

  • Það er hægt að Mute –a (slökkva á hljóði þátttakanda) til að koma í veg fyrir bakrunnshljóð eða að þátttakendur tali yfir hvorn annan. 
  • Hægt er að stoppa video. 
  • Hægt er að deila tölvuskjánum t.d. ef farið er í spurninga leiki en passið að vera þá ekki með mikið af opnu efni á tölvunni á meðan.  

Ef þú hefur einhverjar spurningar – ekki hika við að hafa samband við ÆSKÞ – aeskth@aeskth.is