Farið í ýmsa spennuleiki.

Mafíuleikurinn

Hljómar ekki vel en er góður leikur til að ræða fordóma, orsakir og afleiðingar.  Skrifið niður á smámiða nokkra mafíósa (fer allt eftir því hversu stór hópurinn er, þó aldrei færri en tveir).  Skrifið niður á blað löggu, eina eða tvær.  Restin af smámiðunum eru auðir og standa fyrir almenna bæjarbúa.  Krakkarnir sitja í hring.  Leiðtoginn er leikstjórnandinn. Leikstjórnandinn dreifir miðunum.  Krakkarnir verða að gæta þess að enginn sjái hvaða hlutverk þau fengu.  Leikstjórnandinn segir; Bærinn sofnar.  Þegar allir krakkarnir hafa beygt höfuðið niður og lokað augunum segir leikstjórnandinn; Mafían vaknar.  Mafían ákveður þá án þess að gefa frá sér hljóð hvern á að drepa og koma skilaboðunum um það til leikstjórnandans.  Leikstjórnandinn segir þá; Mafían sofnar.  Því næst segir leikstjórnandinn löggan vaknar; líta löggurnar upp og þær mega spyrja leikstjórnandann hvort einhver ákveðinn sé í mafíunni. Leikstjórnandinn verður að svara rétt til um það. Því næst segir leikstjórnandinn; Bærinn vaknar og þá líta allir upp.  Leikstjórnandinn tilkynnir að morð hafi verið framið í bænum og segir hver hefur verið drepinn.  Bæjarbúar eiga nú að reyna að komast að því hverjir eru í mafíunni og drepa þá.  Sá eða sú sem fær flest atkvæði frá hópnum er drepinn.  Löggurnar geta hér reynt að koma því á framfæri hver er í mafíunni en það verða þær að gera mjög varlega því annars geta mafíósarnir komist að því hver er löggan og drepið löggurnar.  Leikstjórnandinn segir þá aftur; Bærinn Sofnar og endurtekur sama ferli og áður.  Spuringin er, tekst mafíunni að drepa alla bæjarbúa eða tekst bæjarbúum að ná mafíunni?  Eftir leikinn getið þið rætt við krakkana um leikinn, hvaða hlutverk þau tóku sér í leiknum, hvort þau voru áberandi eða ekki? Hvers vegna þau voru tilbúin að kjósa að drepa einhvern þó svo að þau hafi ekki verið viss um sekt einstaklingsins og fleira þessu líkt.

Morð í myrkri

Leiðtoginn er með jafn marga miða og þátttakendur eru, á einum miða stendur morðingi.  Miðunum er dreyft til krakkanna og þeir svo teknir aftur.  Ljósin eru svo slökkt og krakkarnir fara á stjá.  Morðinginn gengur um og pikkar í þá sem hann ætlar að losa sig við.  Þau sem eru úr leggjast á gólfið og mega ekkert segja.  Ef einhver telur sig vita hver morðinginn er má hann hrópa ,,ég ákæri” þá eru ljós kveikt og sá sem ákærir má benda á hver hann telur morðingjann vera.  Ef hann hefur rangt fyrir sér, er hann úr og leikurinn heldur áfram, ef hann hefur rétt fyrir sér er leiknum lokið og hægt er að hefja hann á ný.

Morðingi

Setið er í hring.  Allir krakkar grúfa sig niður og leiðtogi gengur í hring og pikkar laust í höfuð á öllum þátttakendum, leiðtoginn pikkar þó tvisvar í höfuð þess sem á að vera morðinginn.  Þegar þessu er lokið mega allir líta upp.  Leikurinn gengur út á það að morðinginn á að reyna að ná augnsambandi við þátttakendur og blikka þá. Sá eða sú sem er blikkuð er úr.  Ef einhver telur sig vita hver morðinginn er, má segja ég ákæri, til þess að hægt sé að ákæra þarf einhver að styðja. En stuðningurinn verður að vera í blindni.  Sá sem ákærir á svo að segja hver hann heldur að sé morðinginn, ef hann hefur rangt fyrir sér þá eru bæði sá sem ákærir og styður úr.  Ef þau hafa rétt fyrir sér er leiknum lokið og hægt er að byrja upp á nýtt.