Allir upp á stóla: látið krakkana raða sér upp eftir aldri, hárlit, skóstærð, augnlit, eða hverju sem ykkur dettur í hug. Bannað er að fara niður af stólunum. Einnig hægt að banna að þau tali saman, það er rosa gaman.
Auður stóll: Krakkarnir sitja í hring. Einn verður eftir í miðjunni og einn stóll er auður í hringnum. Sá sem er í miðjunni á að reyna að setjast í auða sætið. Þau sem sitja í hringnum eiga að reyna að koma í veg fyrir það með því að kalla á einhvern sem á að setjast í auða sætið. Sá eða sú sem situr vinstra megin við sætið á að kalla nafn einhvers sem er í hringnum til að setjast í sætið. Sá sem er í miðjunni á að reyna að setjast í sætið áður en nafn er kallað upp. Ef sá í miðjunni nær að setjast í auða sætið þá á sá sem sat vinstra megin við að fara í miðjuna. Hér gildir að vera vakandi fyrir því að sæti við hlið manns losni og vera tilbúinn að nefna nafn.
Koddaleikur: Látið krakkana sitja á gólfinu í hring. Númerið þau 1 og 2 allan hringinn þannig að annar hver unglingur sé númer 2 og hinn númer 1. Látið einn krakka sem er númer eitt hafa kodda eða púða og annan sem er númer tvö og situr beint á móti á að hafa annan kodda. Markmiðið er svo að kasta púðanum réttsælis til næsta manns sem er með sama númer og reyna að ná hinu liðinu og koma púðanum sínum fram úr púða hins liðsins. Púðinn verður þó alltaf að fara til næsta manns sem er með sama númer. Það er bannað að sleppa úr.
Zip Zap: Þátttakendur standa í hring. Þau láta Zip hljóð ganga til næsta manns með því að segja Zip og benda á næsta mann. Hægt er að breyta stefnu hljóðsins á tvennan hátt. Annars vegar ef sá sem fær Zip, hoppar upp og æpir af lífs og sálar kröftum DOJJJJONG, þá fer Zip aftur til baka á þann sem sendi það og heldur áfram hinn hringinn. Önnur leið er að segja Zap og benda á hvern sem er inni í hringnum. Þá á sá sem fær Zap að halda áfram að senda Zip til næsta manns eða senda annað Zap, eða svara með DOJJJNG. Gaman er að spila þennan leik mjög hratt.
Eldur og brennisteinn eða Ávaxtakarfan: Gefið krökkunum númer frá 1 og uppúr eða nafn á ávexti. Hafið einum stól færra en þátttakendur eru, sá sem er í miðjunni á að nefna tvær tölur eða einn ávöxt. Þau sem eru með töluna eða eru ávöxturinn eiga svo að skipta um sæti og sá í miðjunni á að reyna að ná sætinu. Einnig er hægt að segja ávaxtakarfa eða Eldur og brennisteinn og þá fara allir af stað og eiga að skipta um sæti. Hægt er að láta þátttakendur búa til svokallaða lest. Það er þá þannig að þeir sem sitja geta skipt um sæti þegar laust sæti er við hlið þeirra. Það gerir þeim sem eru að reyna að ná sætinu erfiðara fyrir. Þannig myndast stundum lest, þar sem krakkarnir hoppa á milli sæta og stemmingin verður ótrúleg.
Týndur í skóginum: Fáið þrjá krakka til að vera blindingja, bindið fyrir augun á þeim. Þrír eiga að sjá um að snúa blindingjunum og restin af krökkunum leikur tré. Trén eiga að vera alveg kyrr en með hendurnar á lofti og reyna að grípa blindingjana en snúningsfólkið á að reyna að bjarga blindingjunum frá trjánum. Ef tré nær blindingja þá skipta þeir um hlutverk.