Allir saman!
Eiðar 28. – 29. mars 2008
TTT-mót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og Múlaprófastdæmis, haldið í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum 28. – 29. mars 2008. Skýrsla.
Mótið bar yfirskriftina “Allir saman” og var þema mótsins samvinna. Mótsstjórar voru Magnea Sverrisdóttir og Jóna Lovísa Jónsdóttir.
Kynningarbréf um mótið var sent til prófasts 13. mars. Þar komu fram helstu upplýsingar, svo sem heiti móts, dagskrá, komu- og brottfarartímar og helstu upplýsingar fyrir þátttakendur. Kynningarbréfið hefði mátt fara fyrr út í ljósi þess að páskahelgin var 21. – 24. mars. Upplýsingar um mótið voru síðan settar inn á vef ÆSKÞ og vef Þjóðkirkjunnar. Eftir mótið var frétt um mótið sett inn á sömu vefsíður. Áætlaður fjöldi þátttakenda var á bilinu 40 – 50. Fjöldi þátttakenda var þó nokkuð meiri eða 55 börn, 5 ungleiðtogar og 3 leiðtogar.
Framkvæmd. Börnin voru flest komin í hús um kl. 18:30 og hófst dagskráin með kvöldverði kl. 19:00. Boðið var upp á pizzu og mæltist það vel fyrir hjá börnunum. Eftir kvöldverð fengu börnin smá tíma til þess að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku. Hverju herbergi var falið að sjá um eitt atriði. Þetta gekk mjög vel og skemmtu bæði börn og fullorðnir sér vel á kvöldvökunni. Boðið var upp á ávaxtahressingu um kvöldið og örlítið sælgæti í tengslum við kvöldvökuna. Dagskrá föstudagsins lauk með “kósýstund”. Rætt var við börnin um kærleikann, sungið og farið með bænir fyrir svefninn. Fengin var manneskja til þess að vera á næturvaktinni og fengust þær upplýsingar hjá henni að töluvert hefði verið um óróleika um nóttina, verið að stelast út um glugga og slíkt. Hugsanlega væri gott að hafa tvo á næturvakt á næsta móti, karl og konu. Dagskrá laugardagsins hófst með morgunverði kl. 9:00. Eftir morgunmat var samverustund og síðan var farið í þemavinnu. Fengu börnin að búa til hendur hvors annars úr gifsi. Ákveðið var að hafa allan hópinn saman í þeirri vinnu og gekk það mjög vel. Börnin voru áhugasöm og vönduðu sig við vinnu sína. Í tengslum við þessa gifshandagerð var talað um það hvernig hendur okkar geta verið hendur Guðs.Eftir hádegismatinn (grjónagraut, pizzur og heitt ostabrauð) var aftur farið í þemavinnu. Hópnum var skipt í þrennt:
- Hópur sem gerði brjóstsykur. Magnea hjálpaði börnunum að búa til brjóstsykur og voru börnin afskaplega ánægð með það. Búinn var til lakkrísbrjóstsykur sem var auðvitað alveg “himneskur” á bragðið.
- Hópur sem útbjó hnött á maskínupappír og teiknuðu/máluðu svo hendurnar sínar (frá olnboga og niður úr) á pappír og klipptu út. Markmiðið var að búa til stórt listaverk sem hengja mætti upp á vegg Kirkjumiðstöðvarinnar. Unnið var í miðrými kirkjumiðstöðvarinnar. Hugsanlega hefði mátt skipta matsalnum og hafa bæði brjóstsykursgerðina og hendurnar þar. Það var svolítið erfitt að þurfa að vinna á gólfinu.
- Leikjahópur. Ungleiðtogarnir sáu um þennan hóp og fór hann fram í innsta rýminu. Leikjahóparnir gengu yfirleitt mjög vel.
Eftir hópavinnuna fóru börnin í það að pakka niður og ganga frá herbergjunum sínum. Skúffukaka og snúðar voru svo á boðstólum kl. 15:00. Þegar allir voru búnir að næra sig hófst lokastundin þar sem listaverkið “Hendur okkar – hendur Guðs” var hengt upp á vegg, gifshendur voru afhentar, hópmynd tekin og börnin kvödd.
Niðurlag Ég tel að mótið hafi tekist vel í alla staði. Nauðsynlegt er að á staðnum séábyrðaraðili fyrir hvern hóp, fullorðinn einstaklingur sem þekkir börnin og er tilbúinn til þess að vera mótsstjórum innan handar. Rétt er að leggja áherslu á þetta við skráningu á mót sem þetta. Mjög gott var að hafa ungleiðtogana á staðnum og var hjálp þeirra ómetanleg. Svona mót er kjörið tækifæri fyrir leiðtogaþjálfun. Að lokum vil ég þakka öllum sem að mótinu komu fyrir þeirra framlag. Fh. ÆSKÞ og mótsstjóra Jóna Lovísa Jónsdóttir, framkv.stj. ÆSKÞ.