Helgileikur á aðventu

1: Hvernig er konungur borinn í heiminn?

2: Hann fæðist af konungborinni fjölskyldu og býr í glæsilegri höll.
3: Konungurinn okkar Jesús Kristur fæddist í fjárhúsi af fátækum foreldrum og lagður í jötu.
4. Þegar konungur fæðist vitja hans voldugt og ríkt fólk, fréttin berst vítt og breitt um ríkið
5. og er fagnað með hátíðarhöldum.

6. Jesús Kristur fæddist með leynd og var vitjað af fjárhirðum og vitringum.

2: Konungur hefur um sig varðmenn og hann nýtur virðingar hefðarfólks.

7: Foreldrar Jesú urðu að flýja með Jesú, konunginn okkar,
8: til Egyptalands til að bjarga honum undan Herodesi konungi sem vildi deyða hann.
9: Jesús Kristur var í upphafi ekki velkominn.
6: Það var ekki rúm fyrir þau í gistihúsinu.

1: Hvernig er líf konungs?

2: Hann lifir í alsnægtum og á allt sem hugur girnist.

7: Jesús Kristur, konungurinn okkar, lærði smíðar og ólst upp við lífsbaráttu alþýðufólks.

3: Konungur er keyrður um á gulli slegnum vagni.
4: og hvar sem hann kemur í heimsókn er tekið á móti honum með konunglegri viðhöfn.

8. Jesús Kristur, konungurinn okkar, fór fótgangandi á milli þorpa,
9: eignarlaus og upp á aðra kominn um viðurgjörning og næturstað.

5. Konungur hefur þjóna á hverjum fingri og skipar öðrum að vinna erfið verk.

6: Jesús Kristur, konungurinn okkar, þvoði sjálfur fætur lærisveina sinna.
7: Hann þjónaði fólki, læknaði og hjálpaði.
8: Jesús sagði: Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.
9: Og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
6: Komið til mín, þér öll sem erfiði og þunga eruð hlaðin og ég mun veita yður hvíld.
7: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.
8: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.

1: Flestir konungar gleymast.

2: En við munum eftir Jesú Kristi og höldum jól til að minnast fæðingar hans.
3: Og það er mikil hátíð.
4: Meiri hátíð á jörð en nokkrum öðrum konungi hefur verið haldin.
5: Engillinn á Betlehemsvöllum sagði:
2, 3 og 4: Sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur.
6,7,8 og 9: Jesús Kristur, konungurinn okkar, er frelsari lífsins.

1: Þetta er skrýtin saga.

1, 2, 3, 4 og 5: Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi mun varðveita hjarta þitt og hugsanir þínar í Jesú Kristi, Drottni vorum.

1: Er þetta þá saga sem æðri er öllum mannlegum skilningi?

9: Við undirbúum gleðileg jól til að fagna komu Jesú í heiminn.

8: Og Jesús Kristur, konungur lífsins, er Guð mitt á meðal okkar.

Allir eða 1: Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Höfundur: Gunnlaugur Stefánsson, 2007