Akureyri 4. febrúar 2011.

 

Skýrsla framkvæmdastjóra ÆSKÞ starfsárið 2010.

Nú er að baki fjórða starfsár Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og það fimmta hafið.  Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að vera starfsmaður sambandsins frá því snemma á árinu 2007.  Á þeim tíma hef ég kynnst fjölmörgu hæfileikaríku fólki, bæði þeim sem starfað hafa í stjórn ÆSKÞ sem og öllum þeim sem starfa á vettvangi æskulýðsins hvort sem það er í launuðum störfum eða í sjálfboðavinnu.

ÆSKÞ var stofnað á vormánuðum 2006 af metnaðarfullum einstaklingum sem höfðu þá hugsjón að með stofnun frjálsra félagasamtaka sem teygði arma sína um allt land væri hægt að efla þátttöku ungs fólks í trúarlegu starfi á vegum þjóðkirkjunnar.

Það má skilgreina ÆSKÞ sem hagsmunasamtök ungs fólks með eftirfarandi markmið:
a)   Gefa ungu fólki tækifæri og hvetja þau til að taka þátt í fjölbreyttu og lifandi æskulýðsstarfi sem hefur boðskap Jesú Krists að leiðarljósi.

b)   Efla æskulýðsstarf fyrir 6 – 30 ára innan Þjóðkirkjunnar

c)    Vera vettvangur starfsfólks og sjálfboðaliða í barna- og unglingastarfi fyrir samfélag og fræðslu.

d)   Standa að sameiginlegum verkefnum, auka samstarf og veita aðildarfélögum ráðgjöf um uppbyggingu og framkvæmd æskulýðsstarfs.

e)   Vera málsvari fyrir ungt fólk og kristilegs æskulýðsstarfs innan kirkju sem utan.

f)     Beita sér fyrir því að opna frekari möguleika ungmenna til að kynnast ungmennum í kirkjustarfi á erlendum vettvangi.

g)   Stuðla að samkirkjulegum og þvertrúarlegum verkefnum og samstarfi.
(Lög ÆSKÞ, gr.2)

Þetta eru þau markmið sem að stjórn ÆSKÞ hefur að leiðarljósi í störfum sínum og leitast við að ná .

Ef litð er yfir farinn veg þá sést glögglega að með hverju árinu hefur starfssemi ÆSKÞ vaxið.  Verkefni sambandsins eru af ýmsum toga og má þar nefna fræðslufundi fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk safnaða, leiðtogaþjálfun hérlendis og erlendis, viðburði af ýmsu tagi og síðast en ekki síst það hlutverk sambandsins að vera málsvari unga fólksins og æskulýðsstarfsins.

Það er einlægur vilji minn og stjórnar ÆSKÞ að sambandið fái að dafna og vaxa enn frekar og hafa stjórnarmeðlimir lagt á sig mikla sjálfboðavinnu til þess að fylgja þeirri hugsjón sinni.   ÆSKÞ hefur aðeins einn starfsmann, undirritaða, sem er í 50% starfi.  Það er alveg ljóst að ef ekki væri fyrir dugmikla og fórnfúsa stjórn þá væri verkefni ÆSKÞ mun færri en þau eru í dag.  Góð samvinna framkvæmdastjóra og stjórnar eru lykilinn að góðu starfi sambandsins.

ÆSKÞ er þröngur stakkur búinn fjárhagslega og ýmis verkefni eru fjármögnuð með styrkjum.  Helstu styrktaraðilar hafa verið Kirkjumálasjóður og mennta- og menningarráðuneytið.  Einstök prófastdæmi hafa líka veitt styrk til verkefna.

Rekstur ÆSKÞ er fjármagnaður með félagsgjöldum og styrk frá Kirkjumálasjóði.

Landslagið í íslensku efnahagslífi hefur breyst mikið efir hrun bankanna árið 2008.  Á sama tíma og erfiðara er að fá styrkveitingar eykst þörfin fyrir fráls félagasamtök og eflingu sjálfboðastarfs.  Til þess að ÆSKÞ geti eflst og axlað ábyrgð sína í samfélaginu er nauðsynlegt að fá sem flesta sjálfboðaliða til starfa með framkvæmdastjóra og stjórninni úti á akri æskulýðsstarfsins.  Sjálfboðaliðar áttu stóran þátt í því hversu vel tókst til á landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar sem haldið var á Akureyri 15. – 17. október s.l.  Það unnu margar hendur mikið verk og  var þar enginn fremri öðrum.  Öll erum við limir á líkama Krists og því jafn mikilvæg.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir samstarfið á árinu og bið góðan Guð um að leiða okkur öll áfram í lífi okkar og störfum.

Með Guðs blessun,

Jóna Lovísa Jónsdóttir
framkvæmdastjóri ÆSKÞ.