FÖGNUM FJÖLBREYTILEIKANUM er yfirskrift landsmóts ÆSKÞ sem verður haldið á Egilsstöðum í ár, helgina 13. – 15. október. Skráning fer fram hjá leiðtogunum í kirkjunum og er skráningarfrestur til 22. september. Við munum æfa okkur í að elska og virða hvert annað bæði að utan sem innan og fagna þeirri fjölbreytni sem er að finna hjá okkur öllum. Með kærleika, umhyggju og virðingu getum við fundið nýja styrkleika, skemmtun og skilning á okkur sjálfum og hjá hvert öðru og í umhverfinu okkar.

Við munum skoða og þroska okkur sjálf í gegnum leiki, verkefni og listir. Hver og einn þátttakandi mun fá tækifæri til að upplifa kærleika og þróa með sér hæfni til að takast á við veruleikann sem hann mætir hverju sinni.

Við viljum minna á að það er svo margt sem við getum gert sem veitir okkur gleði og hamingju og á þessu móti munum við læra að treysta okkur sjálfum og þeim sem eru í kringum okkur. Að vinna í hóp reynir á félagsleg samskipti og byggir traust.

Við erum sköpunarverk Guðs og líkt og þegar við leggjum okkur fram við að vernda og virða náttúruna þá skiptir máli að við leggjum okkur fram um að vernda, virða, styrkja og efla okkur sjálf. Að við leitum þess sem veitir okkur hamingju.

Árlega stendur ÆSKÞ fyrir landsmóti æskulýðsfélaga og eru þátttakendur á bilinu 300-700 ungmenni á aldrinum 13-17 ára (fædd 2006-2010). Þátttaka í landsmóti hvort sem það er sem þátttakandi, leiðtogi eða skipuleggjandi er virkilega gefandi. Við erum mjög stolt af mótinu okkar og leggjum gífurlegan metnað í það. Stór hluti af starfi ÆSKÞ fer í að skipuleggja þetta mót, en á hverju ári er mótið haldið á nýjum stað. Við reynum að ferðast með mótið á milli landshluta til þess að það séu ekki alltaf sömu æskulýðsfélögin/kirkjur sem þurfa að fara um langan veg. Kostnaði við mótin er stillt í hóf, en sama verð er fyrir alla þátttakendur sama hvaðan af landinu þeir koma. Þátttaka í landsmóti er mikil lyftistöng fyrir æskulýðsfélagið enda skapast þar margar jákvæðar minningar.