Æskulýðsfélagið fæðingarblettirnir

Æskulýðsfélagið í Grafarvogskirkju hittist á þriðjudagskvöldum kl. 20-21:30 á neðri hæð kirkjunnar. Í upphafi annar þá setjum við saman dagskrá í samráði við þátttakendur. Við erum dugleg að fara í skemmtilega leiki og keppnir og nýtum þá stóru flottu kirkjuna í alls konar skemmtanir, eins og t.d. feluleik um allt húsið. Síðan eru brjóstsykursgerðirnar alltaf vinsælar og varúlfur klikkar seint. Dagskrárliðir hausts 2021 voru t.d. kökuskreytingakeppni, spilafundur, orrusta, spurningakeppni, minute to win it, jólaboð og varúlfur.

Í upphafi annar hafa þau því fengið að velja nýtt nafn á æskulýðsfélagið fyrir önnina. Árið 2020-21 hét æskulýðsfélagið Sighvatur en það var ákveðið með lýðræðislegri kosningu að kjósa nýtt nafn á hverju ári þar sem nýr hópur kemur inn á hverju hausti. Þessa önn var einnig haldin kosning en þá máttu allir leggja til nafn og síðan var kosið um þau. Niðurstaðan var sú að árið 2021-22 skyldum við heita Æskulýðsfélagið fæðingarblettirnir.

 

Æskulýðsfulltrúinn

Ég heiti Ásta og er æskulýðsfulltrúi Grafarvogskirkju. Ég hef m.a. umsjón með æskulýðsfélaginu í Grafarvogskirkju en ég er einnig með tvo snilldar leiðtoga með mér í því. Ég tók við starfinu haustið 2020 og hef því bara skipulagt æskulýðsstarfið okkar í covid-aðstæðum sem er ákveðin áskorun. Síðan ég byrjaði þá hafa fermingarbörnin aðallega mannað starfið.

Æskulýðsfundirnir

Það er nóg um að vera á æskulýðsfundum í Grafarvogskirkju. Við leiðtogarnir viljum umfram allt að öllum líði vel hérna í kirkjunni hjá okkur. Það hafa allir gott af góðum félagsskap og jákvæðu umhverfi og við vonum að þau sem kíkja til okkar í æskulýðsfélagið finni fyrir því. Þátttakendur eru langoftast fermingarbörn og fá nóg af fræðslu þar þannig hérna í æskulýðsfélaginu leggjum við áhersluna frekar á fjör og skemmtilegheit. Það er gaman að koma í kirkjuna og vera með okkur. Við leiðtogarnir viljum vera til staðar fyrir þau og að þau njóti sín hjá okkur. Við fræðumst um náungakærleik í verki og hingað eru allir velkomnir. Í kirkjuna koma ólíkir krakkar úr mismunandi skólum og hjá okkur fá þau tækifæri til að kynnast á jafningjagrundvelli þar sem allir eru velkomnir. Við leiðtogarnir eigum góðar minningar úr æskulýðsstarfi og viljum gefa það áfram, gera það sem við getum til að aðrir upplifi það sem við upplifðum.

Í kirkjuna máttu alltaf koma nákvæmlega eins og þú ert og hér verður alltaf tekið á móti þér með kærleika og bros á vör.

Takk fyrir okkur!