Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna.

Náum áttum hópinn mynda fulltrúar nokkurra stofnana og félagasamtaka sem vinna að forvörnum, velferð, vernd og mannréttindum barna. Hópurinn spannar flest svið er varða forvarnir og velferð barna og leitar samstarfs við aðra aðila hvað varðar efni til að fjalla um á morgunverðarfundunum.

Þeir sem vilja koma með hugmyndir að umfjöllunarefni á fundunum geta haft samband við aðila innan hópsins.

Morgunverðarfundirnir eru kynntir og auglýstir með útsendingu á póstlista, á vefsíðu og  facebook síðu Náum áttum. Mikilvægt er að fólk skrái sig á fundina fyrirfram svo hægt sé að áætla fjöldann. Kostnaði er haldið í lágmarki og greiða fundargestir einungis fyrir morgunverð. Enginn sérstakur rekstur er um verkefnið, hvorki aðalfundir eða stjórn til staðar eða annað fast starfsfólk.

Fyrstu fundir Náum áttum voru haldnir árið 2000 en þá var mikil umræða um eiturlyf og forvarnir og innan verkefnisins Ísland án eiturlyfja 2002 vaknaði  hugmynd um að efla þyrfti samstarf um upplýsinga- og fræðslustarf um vímuvarnir.  Nú spanna umfjöllunarefni Náum áttum fundanna allt litróf forvarna.