Það er með sorg í hjarta að stjórn ÆSKÞ tilkynnir að Landsmóti 2021 sem fram átti að fara á Sauðárkróki hefur verið aflýst. 

Ástæða þess er að enn gilda 200 manna samkomutakmarkanir (500 manna samkomutakmarkanir eiga við um 500 manns í hólfi á sitjandi viðburðum). Næsta reglugerð kemur ekki fyrr en 17. September og er það of stuttur tími til þess að grípa til afbókana á allri þeirri þjónustu sem við þurfum að standa skil á fyrir mót af þessu tagi.

Þá hafa almannavarnir ítrekað þær miklu afleiðingar sem það kann að hafa í för með sér ef smit kemur upp á mótinu fyrir skólastarfið í landinu, hvort sem börnin smitast eða þurfa að fara í sóttkví. En í ljósi þess hve mikil blöndun er óhjákvæmileg á móti sem þessu, sem fram fer innanhúss má ætla að þeir einstaklingar á mótinu sem hafa umgengist þann smitaða í meira en 15 mínútur í einu og minni en tveggja metra nánd þurfi að fara í sóttkví auk þeirra sem hafa átt í endurteknum samskiptum við hinn smitaða, jafnvel þó samvera væri styttri en 15 mínútur og þar sem snertifletir eru óhjákvæmilega margir og dvölin löng í sama rými má ætla að flestir þeir sem eru mótinu myndu þurfa að fara í sóttkví eða viðhafa smitgátt, bæði þátttakendur og leiðtogar komi upp smit.

Varðandi þann möguleika á að nýta t.d. hraðpróf (sem þó eru ekki jafn áreiðanleg og PCR próf) þá segir það eingöngu til um stöðuna/smit á þeim tíma sem sýnataka fór fram. Sýnatökur af þessu tagi mega fara fram allt að 48 tímum fyrir fjöldasamkomur, en það gefur augaleið að einstaklingar geta orðið útsettir fyrir smiti fram að mætingu á mótinu, eða á mótssvæðinu sjálfu t.d. í verslun eða af snertifleti á leið á mótið. Í núgildandi reglugerð er einungis miðað við að hraðprófum sé framvísað ef 500 manns koma saman, og er þá m.a. skilyrði að ekki sé setið andspænis hvert öðru, s.s. í leikhúsi. Í þeim tilvikum skulu hraðprófin ekki vera eldri en 48 klst. og einungis framkvæmd undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknarstofu eða af starfsmönnum sem hafa hlotið þjálfun til slíks.

Tengiliður okkar hjá almannavörnum hefur einnig ítrekað nýtt sem dæmi dansbúðir sem fram fóru á Laugarvatni í ágúst. En af 140 þátttakendum og leiðtogum smituðust 52 af COVID -19. Þrátt fyrir að allir hafi farið í sýnatöku fyrir búðirnar og farið hafi verið eftir öllum reglum sem þá voru í gildi, smituðust rúmlega 1/3 mótsgesta og voru allir sem komu að dansbúðunum með einum eða öðrum hætti sendir í sóttkví. Ef viðlíka smit kæmi upp á landsmóti er ljóst að áhrif þess á samfélagið væru töluverð, þar sem skólastarf er nú komið á fullt.

Því miður er umfangið við að tryggja öryggi þátttakenda og alþrif á húsnæðinu vegna hreinsunar allra snertiflata slíkt að við sjáum okkur ekki fært að taka ábyrgð á því og tryggja að ekki komi upp smit á mótinu eða smit sem hægt er að rekja til vanþrifa eftir mót.

Það er óneitanlega erfitt að aflýsa mótinu á þessum tímapunkti, þar sem allt eins getur verið að sóttvarnir verði orðnar rýmri þegar nær dregur mótinu. Hinsvegar þurfa allir sem koma að viðburðinum tíma til að undirbúa mótið og ferðina og því betra að aflýsa því núna en á síðustu stundu. Þá höfum við sem mótshaldarar einnig áhyggjur af skipulagningu á mótinu þar sem reglulega heyrast fréttir af heilu bekkjunum sem eru að lenda í sóttkví vegna smita. Þannig gæti reynst einstaklega erfitt að halda utan um skráningu á mótið, en slíkt skiptir miklu máli þegar matur og rútusæti eru áætluð.

Við höfum reynt að hugsa ýmsar leiðir en því miður er þetta niðurstaðan. Við ákvarðana töku áttum við mikil og góð samskipti við Almannavarnir, Heilbrigðisráðuneytið, Almannavarnanefnd norðurlands og grunnskólann á Sauðárkróki. Er það samróma álit þessara aðila að öruggara sé að sleppa mótinu og förum við eftir þeim leiðbeiningum.

Við stefnum nú á mót á Akranesi 2022. Það er von okkar sem störfum fyrir ÆSKÞ að á þeim tímapunkti verði Covid-19 orðinn allt að því fjarlæg minning en ef svo vill til að enn sé veira á kreiki í samfélaginu að þá kunnum við enn betur að glíma við hana, þannig að mótið fái að fara fram við eins hefðbundnar aðstæður og hugsast getur.

Þrátt fyrir þetta viljum við þó benda æskulýðsfélögunum á að taka frá helgina 15.-17. október við vinnum nú að því að undirbúa viðburð sem æskulýðsfélögin geta halið í sinni heimakirkju en á samtíma átt samfélag með öðrum æskulýðsfélögum í gegnum netið.