Líkt og undanfarin ár mun ÆSKÞ taka þátt í Gleðigöngunni, sem er hápunktur  Hinsegin daga. Gangan í ár mun þó verða með töluvert breyttu sniði, en aðstæður í samfélaginu leyfa því miður ekki að fólk fjölmenni í gönguna líkt og verið hefur síðustu ár. 

Hinsvegar hvetjum við nú alla til að taka þátt í „Gleðigangan mín“ en í ár eru allir hvattir til að fara í sína eigin Gleðigöngu, taka jafnvel með sér fána, skreyta sig með litum eða gera hvað það sem viðkomandi þykir við hæfi til þess að sýna viðburðinum virðingu sína.

Mælst er til þess að gangan hefjist kl 14:00 laugardaginn 8. ágúst og þátttakendur gangi þá leið sem þeim þykir best og sýni þannig stuðning sinn við réttindabaráttu hinsegin fólks og fagni fjölbreyttu samfélagi. Hægt er að sýna þátttöku sína á samfélagsmiðlum undir myllumerkjunum: #glediganganmin #stoltskref #reykjavikloves #proudwalk #reykjavikpride2020 og einnig væri vel við hæfi ef #ÆSKÞ og #kirkjan fengju að fylgja með.

Þá hefur ÆSKÞ í samstafi við Biskupsstofu mælst til þess að fáni Hinsegin fólks verði dreginn að húni í hverri kirkju og kirkjuklukkum hringt kl 14. laugardaginn 8. ágúst. Við hvetjum jafnframt allar sóknir til standa fyrir sinni eigin gleðigöngu með því að halda útimessur, bjóða uppá göngu eða vera með annan viðburð til stuðnings réttindabaráttu hinsegin fólks. Sýnum kærleikan í verki og verum með.