Fundurinn var settur 27. febrúar en lauk ekki fyrr en 16. mars, þaulsetu fundarmanna er þó ekki um að kenna. Heldur var ákveðið að fresta fundi þar sem í ljós kom að ársreikningar voru ekki réttir. Báðir fundirnir voru haldnir í Neskirkju og voru ágætlega sóttir. Fundargerð aðalfundar má nálgast hér á vefsíðunni. 

Ný stjórn var kosin á fundinum en staða formanns og gjaldkera voru lausar. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir var kosin formaður og Katrín Helga Ágústsdóttir fékk áframhaldandi kjör sem gjaldkeri. Þá voru fimm kosnir í varastjórn: Berglind Hönnudóttir, Eva Björk Valdimarsdóttir, Sóley Adda Egilsdóttir, Inga Harðardóttir og Anna Lilja Steinsdóttir. Ingunn Björk Jónsdóttir og Guðmundur Karl Einarsson voru kosin skoðunarmenn reikninga.

Töluverðar umræður sköpuðust um fjármálin að vanda. Staðan er nú þannig að ÆSKÞ hefur tekist að koma sér í þá stöðu að félagið á inni fjármuni fyrir heilu rekstrarári. Fyrir frjáls félagasamtök eins og ÆSKÞ sem reiðir sig á styrki til að halda starfsemi sinni gangandi er þetta ákaflega góðstaða, ef aðstæður í þjóðfélaginu breytast eða kirkjumálasjóður þyrfti að draga úr styrkjum til ÆSKÞ myndi það ekki kosta að félagið þyrfti umsvifalaust að minnka eða hætta starfsemi heldur gæti haldið sér á floti og gert viðeigandi ráðstafanir. Vissulega er ekki markmið samtakanna að safna fjármunum, en svona teljum við okkur geta tryggt meira starfsöryggi fyrir samtökin.

Einnig voru mótsgjöld á landsmót rædd á báðum fundum. Fram komu tillögur um lækkun þeirra en ljóst er að stíga þarf varlega til jarðar í þeim efnum þar sem ekki er víst hvaða áhrif nýir kjarasamningar munu hafa á rútu verðin. Lítil lækkun gjaldanna getur orðið til þess að mótið sé rekið með miklum halla. Hins vegar er mikilvægt að aðalfundur sýni stjórninni aðhald og brýni mikilvægi þess að gæta meðalhófs í allri verðlagningu á mótinu.

Þá voru ferðamál á landsmót einnig til umræðu og því velt upp hvort aðildarfélögin ættu sjálf að sjá um ferðir sinna félaga eða hafa fleiri valmöguleika þegar kemur að ferðatilhögun. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og var síðast ályktað um hana á aðalfundi 2017 þar sem fundurinn lagðist gegn hugmyndum stjórnar um að aðildarfélögin bæru ábyrgð á ferðum sínum, jafnvel þó að fyrir lægi að landsmótsgjaldið myndi hækka þar sem fyrrum þjónustuaðili ÆSKÞ tæki ekki lengur að sér að skipuleggja ferðir á landsmót. Það er því ljóst að stjórn þarf að taka upp þessa umræðu aftur og skoða hvaða leiðir eru færar. Hafi aðildarfélögin skoðun á þessum málum væri mjög gott að heyra í þeim.

 

Þá minnum við alla sem eru starfandi æskulýðsleiðtogar að skrá sig á póstlista ÆSKÞ. Fljótlegast er að senda tölvupóst á aeskth@aeskth.is