Laugardaginn 20. maí sl, fór Kirkjuþing Unga fólksins fram á Biskupsstofu. Var þetta í áttunda sinn sem þingið er haldið. Að venju komu þar saman fulltrúar úr öllum prófastsdæmum auk fulltrúa frá KFUM/KFUK.

Þingið hefur sannað sig sem mikilvægur þáttur í þróun kirkjunnar og hefur þegar sett mark sitt á stjórnskipunina og stefnumál þjóðkirkjunnar. Það er frábært að kirkjan sé óhrædd við að gefa ungu fólki tækifæri til að móta framtíð kirkjunnar sem þau tilheyra.

Í ár var Hafdís Ósk Baldursdóttur úr Reykjarvíkur prófastsdæmi vestra kosin forseti þingsins. Fyrir þinginu lágu fjögur mál, en einu máli var bætt inn á málaskrá að morgni þingdags.

Málin sem tekin voru fyrir voru:

  1. Farskóli leiðtogaefna. Kirkjuþingið ályktaði um möguleika þess að lengja farskóla leiðtogaefna svo hann væri í þrjú ár í stað tveggja og yrði þá einnig útvíkkaður svo hluti námsins væri evrópskt ungmennaskipta verkefni.
  2. Samræmt námskeið fyrir nýtt starfsfólk í æskulýðsstarfi Kirkjunnar. Kirkjuþing unga fólksins 2017 ályktar að fært verði í starfsreglur kirkjunnar að allt starfsfólk skuli sitja samræmt námskeið um starfshætti æskulýðsleiðtoga og siðareglur Kirkjunnar. Lagt er til að grunnnámskeið fyrir leiðtoga í barna og unglinga starfi kirkjunnar sé breytt í einskonar skóla þar sem námsefni fyrir öll prófastsdæmin sé það sama og hægt væri að fá þetta námið viðurkennt af menntamálaráðuneyti og metið til eininga á framhaldsskólastigi.
  3. Viðbót við umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing unga fólksins 2017 ályktar að bætt verði við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar að einnota plastmálum verði útrýmt úr safnaðarstarfi kirkjunnar fyrir árið 2019.
  4. Nefnd um endurskoðun á æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing unga fólksins 2017 styður skipan starfshóps á vegum biskups Íslands er endurskoði skipulag æskulýðsmála þjóðkirkjunnar. Biskup Íslands hyggst skipa þriggja manna starfshóp til að endurskoða skipulag æskulýðsmála þjóðkirkjunnar. Starfshópurinn verði skipaður einum fulltrúa sem biskup tilnefnir, einum fulltrúa tilnefndum af kirkjuþingi unga fólksins og einum fulltrúa tilnefndum af ÆSKÞ.
  5. Kirkjuþing unga fólksins 2017 ályktar að fulltrúi kirkjuþings unga fólksins á kirkjuþingi hafi atkvæðisrétt í stað þess að vera áheyrnarfulltrúi. Mun þetta styrkja stöðu fulltrúa kirkjuþings unga fólksins á þinginu.

Allar tillögurnar voru samþykktar sendar áfram í nefndarvinnu sem þátttakendur á þinginu unnu í fram eftir degi. Ljóst er af þeim málum sem lágu fyrir og þeim umræðum sem sköpuðust á þinginu að hugur er í ungu fólki í kirkjunni. Það er líka merkilegt að sjá þátttakendur þroskast á þinginu og sjá fulltrúa koma ár eftir ár til að fylgja eftir málum og standa í báðar fætur og berjast fyrir hugmyndum sínum og framtíðarsköpun kirkjunnar.

ÆSKÞ þakkar öllum þátttakendum fyrir frábært þing, við hlökkum til að vinna með ykkur að ári.