Bjarni Gíslason, framvkæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, tekur við söfnunarfénu úr hendi Guðmundar Karls Einarssonar, gjaldkera ÆSKÞ

Bjarni Gíslason, framvkæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, tekur við söfnunarfénu úr hendi Guðmundar Karls Einarssonar, gjaldkera ÆSKÞ

Aðalfundur Æskulýðsfélags þjóðkirkjunnar ÆSKÞ var haldinn fimmtudaginn 18. febrúar í Neskirkju. Fundurinn var sá 10. í röðinni enda fagnar sambandið 10 ára afmæli á þessu ári. Í upphafi fundarins afhenti gjaldkeri ÆSKÞ, Guðmundur Karl Einarsson, Hjálparstarfi kirkjunnar 500.000 kr sem er afrakstur söfnunar á Landsmóti ÆSKÞ sem fram fór í Vestmannaeyjum dagana 23-25. október 2015. Þar söfnuðu 700 unglingar og leiðtogar þeirra fé fyrir Pollasjóð og Hemmasjóð Hjálparstarfsins.

Pollasjóður var stofnaður árið 2014 þegar Heiðar í Pollapönki setti Eurovisiongítarinn sinn á uppboð. Úr sjóðnum fá börn efnalítilla foreldra styrk og þar með tækifæri til að láta draum sinn rætast og stunda tónlistarnám. Hemmasjóður er nefndur eftir Hermanni Hreiðarssyni, knattspyrnumanni, sem lagði til stofnfé hans. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styrkja börn efnatlítilla foreldra og veita þeim tækifæri til að stunda íþróttir með vinum sínum og félögum.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar tók við gjöfinni úr hendi gjaldkera. Bjarni lýsti við þetta tækifæri yfir mikilli ánægju með samstarfið við ÆSKÞ sem hefur frá 2010 skilað fé í fjölmörg verkefni fyrir þá sem minna mega sín. Unglingar á mótinu taka virkan þátt í söfnuninni og eru hreykin af því að taka þátt í að hjálpa öðrum.

Stefnt er að því að næsta Landsmót ÆSKÞ verði haldið á Akureyri í október og verður sjónum mótsins þá beint að flóttafólki.