Nú er ljóst að landsmótið í ár verður það fjölmennasta sem ÆSKÞ hefur haldið og skráning hefur farið langt fram úr okkar björtustu vonum. Þetta er að sjálfsögðu bara jákvætt og við hlökkum mikið til að upplifa einstaka helgi með æskulýðsfélögunum í Vestmannaeyjum. Markmiðið með þessum pósti er að stikla á nokkrum mikilvægum atriðum varðandi mótið svo að leiðtogar og prestar geti undirbúið ferðina sem best með æskulýðsfélögunum.

Brottfarir

Höfuðborgarsvæðið

Brottför frá Digraneskirkju í Kópavogi kl.9.30 föstudaginn 23.október.
Höfuðborgarsvæðið fer með fyrri ferð Herjólfs frá Landeyjahöfn kl.12.30.

Landsbyggðin

Brottfarir verða tilkynntar á næstu dögum og verða Rakel framkvæmdastjóri ÆSKÞ og Ingi umsjónarmaður rútuferða í sambandi við leiðtoga varðandi það.
Upplýsingar um hvort hópur fari með fyrri eða seinni ferð Herjólfs frá Landeyjahöfn berast til leiðtoga samhliða upplýsingum um brottfararstaði og tíma.

Hvað ef það er ekki siglt frá Landeyjahöfn?

Öll plön miðast við að Herjólfur sigli frá Landeyjahöfn eins og áætlað er. Landsmótsnefnd hefur hinsvegar undirbúið vel hvernig staðið verði að málum ef annað kemur í ljós.

Ef það verður ófært til Landeyjahafnar mun Herjólfur sigla frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Landsmótsnefnd er í góðu sambandi við Herjólf og allar upplýsingar verða sendar til leiðtoga í SMS skilaboðum jafnóðum og við fáum þær í hendurnar. Ef siglt verður frá Þorlákshöfn mun dagskrá landsmóts taka örlitlum breytingum sem verða kynntar ef til þess kemur. Búið er að tryggja það að allir landsmótsgestir eigi öruggt sæti í Herjólfi á föstudeginum, hvort sem siglt er frá Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn.

Við komumst öll á landsmót og það er það sem skiptir mestu máli.

Greiðsla staðfestingargjalda

Skráning hóps telst ekki staðfest fyrr en staðfestingargjöld hafa verið greidd og því mikilvægt að ljúka greiðslu þeirra strax. Afgangurinn af mótsgjöldum verður innheimtur með rafrænni kröfu strax að loknu móti.

Skimun leiðtoga og presta

Athugið að kirkjurnar sjálfar senda Biskupsstofu eyðublöðin og láta svo ÆSKÞ vita að skimun sé lokið.

Hæfileikakeppni

Frestur til að skrá atriði til leiks í hæfileikakeppni ÆSKÞ rennur út þann 16.október nk. Við hvetjum sem flest félög til að taka virkan þátt í keppninni. Allar upplýsingar um keppnina eru hér á heimasíðunni.

[icon style=“icon-clipboard“ url=“https://www.aeskth.is/landsmot-2015/haefileikakeppni/skraning-i-haefileikakeppni/“ target=“_self“ lightbox_content=““ lightbox_description=““]Smelltu hér til að skrá.[/icon]

Nokkur mikilvæg atriði til viðbótar

  • Vegna fjölda mótsgesta bendum við á að tvíbreiðar vindsængur eru ekki leyfilegar nema að tveir sofi á vindsænginni.
  • Þátttakendur og leiðtogar gista í skólastofum og því þurfa allir að taka með sér dýnur, svefnpoka og slíkt.
  • Símar, spjaldtölvur og önnur verðmæti sem mótsgestir/leiðtogar taka með sér til Vestmannaeyja eru alfarið á þeirra ábyrgð.
  • Dagskrá landsmóts er þéttskipuð og mikið um að vera alla helgina. Það er mikilvægt að leiðtogar og prestar fylgist með því að þátttakendur í þeirra félagi borði og drekki nóg á meðan á mótinu stendur og sofi á nóttunni.
  • Leiðtogar/prestar ganga vaktir skv. vaktaskrá á mótinu. Vaktaskráin er afhent við innritun á mótið.
  • Orkudrykkir eru ekki leyfilegir á landsmóti og verða gerðir upptækir ef til þess kemur. Það eru vinsamleg tilmæli til leiðtoga og presta að taka þessa reglu einnig til sín og sýna þannig gott fordæmi.
  • Neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuefna eru með öllu óheimil á landsmóti ÆSKÞ. Verði þátttakandi uppvís að slíku er viðkomandi sendur heim á kostnað foreldra og leiðtogar í viðkomandi kirkju settir inn í málið.