Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) 2014 verður haldið á Hvammstanga dagana 24.-26. október. Stefnt hafði verið að því að halda landsmót á Ísafirði en nú þegar kostnaður þess liggur fyrir er ljóst að til þess að mæta því hefði þurft að hækka  mótsgjöld umtalsvert.

Móti af þessu tagi fylgir mikill kostnaður og er stór hluti hans rútuferðir. Undanfarin ár hefur hann verið hluti af mótsgjaldi og kostnaði við rútuferðir þannig dreift jafnt á alla þátttakendur. Landsmót á Ísafirði hefði það í för með sér að allir mótsgestir yrðu að fara um langan veg og hefði það aukið ferðakostnað umtalsvert. Þá hefðu líklega færri unglingar komist á mótið vegna kostnaðar og því var sú ákvörðun tekin að halda Landsmót ÆSKÞ 2014 á Hvammstanga.

Landsmótið er gríðarlega dýrmætt tækifæri til að styrkja æskulýðsfélög í að halda sínu starfi lifandi og að þau sjái að þau tilheyra stóru kristnu samfélagi. Það er því okkar vona að við sjáum sem flest ykkar á landsmóti ÆSKÞ 2014 á Hvammstanga.