Á landsmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar á Egilsstöðum í lok október var með ýmsum hætti staðið fyrir fjáröflun fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví. Á karnivialinu okkar á laugardeginum höfðu hópar undirbúið tónlistaratriði, leikatriði og dansatriði. Vöfflur, blöðrur og andlistmálning var í boði ásamt varningi sem hóparnir höfðu framleitt í hópastarfi. Góðir gestir frá Malaví tóku þátt. Æskulýðsfélög höfðu einnig staðið fyrir fjáröflun í aðdraganda mótsins.

Markmiðið var að safna fyrir einum brunni, en 430.00 krónur eru afrakstur af söfnuninni. Þessir fjármunir duga fyrir tveim brunnum, 20 hænum og 18 geitum. Svo við náðum markmiðinu okkar og gott betur en það.

Brunnur með hreinu vatni gjörbreytir aðstæðum til hins betra, heilsan verður betri og stúlkur sem áður þurftu að sækja vatn á skólatíma geta nú farið í skóla. Hænur og geitur gefa af sér egg, kjöt og mjólk og auka þannig fjölbreytni næringarefna og fæðuöryggi.

Til hamingju æskulýðsbörn með þennan frábæra árangur.