Já, nú er líf og fjör á skráningarsíðunni okkur og greinilegt er að æskulýðsfulltrúar eru farnir að skrá sína hópa á fullu. Við hlökkum svo sannarlega til að sjá ykkur öll á landsmóti á Egilsstöðum.

Annars er allt gott að frétta héðan úr herbúðum landsmótsnefndar. Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Sr.Agnes M.Sigurðardóttir biskup Íslands mun setja landsmót á föstudeginum og Sr.Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum mun taka þátt í messunni á sunnudeginum.  Hópastarfið er nánast fullmótað og má sjá lista yfir þá hópa sem eru staðfestir hér á síðunni undir Hópastarf & Karnival. Myndband þar sem við kynnum hópastarfið er í vinnslu og verður sett inn um leið og við erum búin að fá staðfestingu á síðustu hópunum.

Aldrei hafa fleiri umsækjendur sótt um í sjálfboðaliðahópinn og ljóst er að erfitt verður að velja úr þessum flotta hópi. Nú fer hver að verða síðastur að sækja um en lokað er fyrir umsóknir nk.föstudag … sama dag og skráningarfrestur rennur út. Landsmótsnefnd óskar ykkur góðs gengis í fjáröflun og undirbúningi fyrir mótið.