Tveir fulltrúar frá landsmótsnefnd gerðu sér ferð á Egilsstaði í síðustu viku til að kynna sér aðstæður enn betur. Dagurinn hófst á morgunkaffi með Hlín Stefánsdóttur, tengilið okkar á Egilsstöðum og manni hennar, Þorgeiri Arasyni. Eftir að hafa skrafað og ráðgert héldum við í íþróttahúsið að hitta Hrein, sem var í óðaönn að skipta um dúk í sundlauginni. Hann rölti með okkur um húsið og við gátum áttað okkur vel á aðstæðum, tekið myndir og planað. Þessu næst lá leið okkar að hitta tæknimanninn okkar á Egilsstöðum þar sem við ræddum um tæknimál, ljós og fleira.

Eftir hádegismat lögðum við leið okkar í Egilsstaðaskóla þar sem allir þátttakendur á landsmóti munu gista. Sigurlaug skólastjóri tók afar vel á móti okkur og saman gátum við sett niður hvernig best væri að haga fyrirkomulagi í skólanum. Auk alls þessa skoðuðum við félagsmiðstöðina Ný Ung, menningarmiðstöðina Sláturhúsið, Egilsstaðakirkju og safnaðarheimilið ásamt fleiru.

Frábær ferð að baki og allt gengur samkvæmt áætlun. Nýtt myndband er í vinnslu og kemur á næstu dögum.

Eins og glöggir landsmótsaðdáendur hafa tekið eftir þá hefur heimasíðan okkar fengið andlitslyftingu og nú má finna allar helstu upplýsingar um landsmót í borðanum hér fyrir ofan.

Landsmótskveðja