Stjórn Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar hefur sent frambjóðendum við embættis biskups Íslands þrjár spurningar um æskulýðsmál. Svör þeirra verða birt hér á vefnum jafnóðum og þau berast. Spurningarnar eru:

  1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?
  2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðuandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?
  3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Hér má svo lesa svör frambjóðendanna.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?

Það er alveg ljóst að þegar fjármagn minnkar þá verður að finna leiðir til sparnaðar.  Æskulýðsstarf er nauðsynlegt í hverjum söfnuði til að öflugt kirkjustarf verði í framtíðinni.  Það er kirkjunnar allrar, sóknarnefnda, kirkjuþings og yfirstjórnar allrar að treysta grunnþjónustu safnaðarins.  Ég mun leggja þeim aðilum lið ef það verður á mínu valdi.

2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðuandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?

Sóknir þjóðkirkjunnar eru misjafnar að stærð og landfræðilegri legu.  Það á ekki það sama við í þeim öllum.  Í stórum sóknum er möguleiki að skipta í hópa eftir aldri en ekki í þeim fámennari.  Skv. hugmyndum um samstarfssvæði á starf með æskulýðnum að vera í boði á hverju svæði.  Það getur verið erfitt í framkvæmd á sumum svæðum.   Fólkið heima fyrir þekkir best aðstæður á hverjum stað.  Biskup á að minna á nauðsyn slíks starfs og styðja við þau er því sinna.

3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Ég reikna með því að óathuguðu máli.

Sr. Gunnar Sigurjónsson

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem   æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?

Já, ég skal af alefli beita mér fyrir því að ríkisvaldið standi full skil á sóknargjöldum. Þar með verður leiðréttur sá niðurskurður sem æskulýðsstarfið hefur orðið fyrir. Í Digraneskirkju hefur æskulýðsstarfið ekki liðið fyrir niðurskurð. Frekar eflst ef eitthvað er. Það mættu aðrir taka sér til fyrirmyndar.

2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðuandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?

Já, ég er tilbúinn til þess að beita mér fyrir því.

3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Þessu get ég ekki svarað. Fullur af vilja, en veit ekki hver dagskrá biskups er svona langt fram í tímann. Ég skal svara þessu þegar ég hef möguleika á að sjá í „dagbók biskups“ 🙂

Sr. Kristján Valur Ingólfsson

Það væri svo auðvelt að segja já við þessu öllu saman, og það væri svo dásamlegt ef maður gæti sagt já og verið fullviss um að það myndi allt geta gengið eftir sem maður óskar sér helst. En þetta er bara ekki þannig, eins dapurlegt og það nú er.

Það er hins vegar ekki nokkur vafi á því í mínum huga að við verðum strax í dag að starfa fyrir kirkju morgundagsins, því annars vestlast hún upp.
En allt sem maður segir verður klisjukennt strax á tungunni. Það er mikið sorgarefni hvernig komið er fyrir barna- og unglingastarfinu, og hvernig við höfum misst frá okkur frábæra starfskrafta.
Ég ætla ekki að reyna að svara þessum spurningum, nema þeirri síðustu: já, ég kem ef ég lifi. Og kannski væri bara líka hægt að bjóða mér þó að ég væri bara vígslubiskup áfram!

En það sem ég vil segja er þetta. Alltof lengi hefur viðgengist í kirkjunni að forgangsraða vitlaust. Ég mun með Guðs hjálp og góðra manna breyta því. Guð veri með þér ævinlega, Kristján Valur

Dr. Sigríður Guðmarsdóttir

Svar mitt við fyrstu spurningunni er það að biskup geti liðsinnt barna-og æskulýðsstarfinu á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi þarf hún/hann að beita sér fyrir því að sóknargjöldunum verði skilað. Þar þarf að myndast breiðfylking kirkjufólks sem að orðar vandann opinberlega og leggst á eitt við að rétta hlut safnaðanna. Það er frumforsenda þess að niðurskurðurinn í æskulýðsstarfinu verði leiðréttur.  Jafnframt vísa ég á grein mína “Búrlyklar biskupsins” sem nálgast má hér.  Greinin fjallar um að við núverandi aðstæður sé óábyrgt að gefa kosningaloforð sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar, vegna þess annars vegar að við lifum á niðurskurðartímum og hins vegar vegna þess að allar líkur eru á því að fjárstjórnarvaldið sé að færast frá biskupnum og kirkjuráðinu yfir til kirkjuþingsins. Leiðréttingar nást aðeins fram ef okkur tekst að leiðrétta þá skerðingu á sóknargjöldum sem við höfum orðið fyrir. Og þá er það líklegt að fjárstjórnarvald hinna sameiginlegu sjóða verði á forræði kirkjuþingsins fremur en biskupsins og spurningin um það hvernig á að deila út fjármunum til barna og æskulýðsstarfs verður þeirra. En biskupinn á að hafa yfirsýnina og hún/hann á að tala máli barna og unglinga og benda á þá stefnumótun og fræðslustefnu sem þjóðkirkjan hefur sett sér. Orð biskups og áhrifavald getur haft mikil áhrif í að rétta hlut barna og ungmenna í þjóðkirkjunni.

Í öðru lagi getur biskupinn beitt sér fyrir lýðræðisumbótum sem miða að því að ungt fólk komist til áhrifa í kirkjunni, með því að tryggt sé í lögum að ákveðinn hluti þingsæta á kirkjuþingi sé eyrnamerktur kirkjuþingsmönnum yngri en 30 ára. Biskupinn getur talað fyrir því að laða ungt fólk til setu í sóknarnefndum. Um leið og aldurssamsetning þeirra sem ákveða hvernig fjármunum er varið á safnaðarvísu breytist, þá breytist gjarnan forgangsröðunin líka. Það er að segja ef eitthvað er í buddunni til að skipta niður.

Svar mitt við annarri spurningunni er þjóðkirkjan hefur sett sér stefnu um barna og æskulýðsstarf og henni á að sjálfsögðu að fylgja.Til þess eru stefnur að fara eftir þeim. Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004-2010 var m.a. birt framtíðarsýn þjóðkirkjunnar fyrir barna og æskulýðsstarf sitt. Þar segir:

Við viljum móta heildstæða fræðslustefnu og sinna fræðslustarfi sem leggur
áherslu á samfylgd frá vöggu til grafar.

  • Í öllum sóknum kirkjunnar sé boðið upp á barnastarf, unglingastarf og fullorðinsfræðslu.
  • Skilgreindar séu skyldur Þjóðkirkjunnar varðandi fræðslu um trú og  hefðir í ljósi þeirrar fræðslu sem veitt er í skólakerfinu.

Fræðslustefna þjóðkirkjunnar er byggð á stefnumótunarvinnunni og hana má nálgast hér: Þar segir að bjóða eigi upp á fræðslu í hverri sókn þjóðkirkjunnar frá vöggu til grafar. Áherslur stefnumótunarvinnunnar og fræðslustefnunnar eru bjartsýnar, glaðar og víðsýnar. En þær byggja á kirkjusýn sem enn er ekki til um þjónustu og fræðslu fyrir alla og raunhæfum markmiðum í þá átt. Við þurfum að gera slíka sýn að raunveruleika í strjálbýlinu jafnt sem þéttbýlinu. Og þessu á biskupinn að vinna að með hagsmuni allra í fyrirrúmi.

Svarið við þriðju spurningunni er að mér væri heiður þiggja boð um að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilsstöðum í októberlok.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson

Í þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað í æskulýðsstarfi er meira í húfi en það fé sem sparast hefur. Ég mun sem biskup beita mér fyrir því að hvergi verði slegið af faglegum kröfum í æskulýðsstarfi og að þjónusta við börn og unglinga verði skilgreind sem grunnþjónusta kirkjunnar. Söfnuðir landsins standa frammi fyrir erfiðu verkefni við ráðstöfun fjármuna, en æskulýðsstarf á að vera forgangsverkefni.

Ég mun beita mér fyrir því að söfnuðir vinni saman að því að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf og að samsetning safnaða ráði forgangsröðun verkefna. Í sóknum þar sem barnafjölskyldur eru í meirihluta er óeðlilegt að minnihluti sóknargjaldi sé varið í þjónustu við þær. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og það er hlutverk biskups að tryggja þeim aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu.

ÆSKÞ gegnir mikilvægu hlutverki sem málsvari æskulýðsstarfs og landssamtök æskulýðsfélaga. Ég hef fylgst með uppbyggingu ÆSKÞ undanfarin ár og mun fagnandi þiggja boð um að sækja Landsmót æskulýðsfélaga í október næstkomandi. Þjóðkirkjan á að setja starf í þágu unga fólksins í forgang. Og það er nútíðarverkefni. Framtíð kirkjunnar verður til með þjónustu við unga fólkið. Við sáum til framtíðar með því að gera æskulýðsstarf að flaggskipi íslensku þjóðkirkjunnar.

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson

Mér er júft að svara og geri það svo:

Blómstrandi æskulýðsstarf er mikil prýði kirkjunnar og því er mikilvægt að því sé veitt athygli og aðhlynning sem ber. Því miður þekki ég ekki í þessum orðum skrifuðum hvaða fjárhæðir er um að ræða, né heldur er ég nægilega kunnugur því í hverju leiðréttingin yrði fólgin en mun sem biskup gera allt sem ég get til að æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar verði hvorki hornreka né látið dragast upp vegna fjárskorts. Sérhver sókn, sérhver kirkja ætti að bjóða upp á starfsvettvang fyrir kirkjulegt samfélag hinna yngri og þar sem það er ekki unnt vegna mannfæðar sóknarinnar eða slíks þá er mikilvægt að finna slíku starfi farveg á breiðari vettvangi. Ég fagna boði á Landsmót Æskulýðsfélaga og tek þessa októberdaga frá í dagbók minni.

Með kærri kveðju og bæn um blessun.
Ykkar einlægur, Þórir Jökull Þorsteinsson.

Sr. Þórhallur Heimisson

Hér koma svör mín varðandi spurningar ÆSKÞ

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?

Ég tel að barna og æskulýðsstarfið sé framtíð kirkjunnar okkar. Blómlegt barna og æskulýðsstarf vitnar um blómlega kirkju. Á þann grunn byggjum við það traust sem er nauðsynlegt að endurreisa milli kirkju og þjóðar. Ég mun gera allt sem ég get til þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu á æskulýðsstarfinu. Sjálfur mun ég leggja áherslu á að sá niðurskurður sem nú blasi við verði leiðréttur. En sú leiðrétting er auðvitað hluti af, og helst í hönd við, heildarleiðréttingu sem þarf að ganga í gegn á sóknargjöldunum. Við þurfum öll að taka höndum saman um að fá þau leiðrétt. Um leið þurfum við að taka hönum saman til að stöðva þá bylgju úrsagna úr kirkjunni sem nú gengur yfir. Úrsagnirnar grafa undan fjárhagslegri getu sóknanna til að þjóna börnum, unglingum, fjölskyldum og öðrum í söfnuðinum. Verði ég kosinn biskup mun ég kalla til samtals um stefnumótun kirkjunnar, meðal annars í barna og æskulýðsmálum og til umræðu um framtíðina. Við þurfum líka að meta hvernig hefur tekist til og hvernig reynslan getur nýst okkur til uppbyggingar. Hvað viljum við? Hvað getum við? Hvernig eigum við að ná þeim árangri sem við viljum stefna að?

2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðuandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?

Biskup á að vera andlegur leiðtogi kirkjunnar fyrst og fremst. Sem andlegur leiðtogi ber honum að standa vörð um allt hið mikilvæga safnaðarstarf sem fer fram í söfnuðum landsins og styrkja það í öllu sínu starfi. í svari mínu við fyrstu spurningunni undirstrikaði ég hversu mikilvægt ég tel æskulýðsstarfið vera. Það skiptir miklu máli að biskup beiti sér sem leiðtogi fyrir æskulýðsstarfinu og geri það þannig sýnilegt í kirkjunni okkar. Sjálfur hef ég unnið mikið að æskulýðsmálum í gegnum tíðina og alltaf reynt að verja æskulýðsstarfið hvar sem ég hef tekið mér stöðu í kirkjunni. Það mun ég að sjálfsögðu gera áfram á fullum krafti sem biskup. Markmiðið á að vera „Lifandi kristilegt æskulýðsstarf um allt land“. Til að ná því markmiði þurfum við að taka höndum saman um allt land – undir forystu biskups og allra annarra sem að því starfi vilja koma.

3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Takk fyrir boðið! Ég mæti að sjálfsögðu. Ég var einu sinni framkvæmdastjóri ÆSKR og stóð fyrir Landsmótum ásamt frábæru fólki. Það voru góðir dagar. Það væri ákaflega gaman að fá að taka þátt í slíku móti á ný, sem biskup Íslands.

Kær kveðja, sr. Þórhallur Heimisson

Sr. Örn Bárður Jónsson

Til hamingju með sóknarhug ykkar og löngun til að efla starfið!

Hér koma svörin:

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?

Einfaldast er að svara bara með einu jái en til nánari skýringar vil ég taka þetta fram:
Ég mun beita mér fyrir eflingu æskulýðsstarfs um allt land og leggja því lið að meira fé verði varið í málaflokkinn. Ég minni á könnun á fjárreiðum sókna sem ég vann árið 1994 og gefin var út undir heitinu Kirkjan í upphæðum. Þar sýndi ég fram á að allt of litlu fé hefði verið varið í barna- og æskulýðsmál. Er enn sömu skoðunar.

2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðuandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?

Já, í öllum prestaköllum og sóknum þar sem því verður við komið.

3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Já, ef Guð lofar.