Spurningakeppnin JESÚS LIFIR sem ÆSKÞ hefur skipulagt undanfarin ár í samstarfi við ýmis trúfélög verður haldin 24.-25. mars 2012.  Undankeppnin fer fram í Suðurhlíðaskóla og úrslitin í Neskirkju.

Þessi keppni er ætluð börnum  í kirkjustarfi á aldrinum 9-12 ára (4. -7. bekk) og er frábær viðbót við hefðbundið TTT- starf í kirkjunni.

Nú í vor var keppnin haldin í Árbæjarkirkju og tóku 12 lið þátt, þar af 6 úr barnastarfi Þjóðkirkjunnar. Er það von okkar að nú muni enn fleiri félög taka þátt.

Lesefnið í þetta sinn er Matteusarguðspjall og er um að gera að kynna keppnina fyrir börnunum í TTT-starfinu sem fyrst því að þau gætu byrjað að kynna sér efnið með því að lesa í Biblíunni eða Barnabiblíunni til þess að undirbúa sig. Spurningarnar eru ítarlegar og því gott að hafa tímann fyrir sér. Einnig er sniðugt að skipuleggja starfið í kringum þetta lesefni. Það er rétt að taka fram að hvert TTT-félag velur sér fulltrúa til þess að keppa því liðin eru skipuð 3 krökkum og einum varamanni.  Það er svo undir þeim sem sjá um starfið á hverjum stað komið hvernig staðið er að valinu.  Allir keppendur fá bol og viðurkenningu fyrir þátttöku en verðlaun verða veitt sigurliðinu.

Þau æskulýðsfélög sem það vilja geta fengið gistingu og verður boðið upp á dagskrá þessa daga fyrir þau.  Það verður gist í Suðurhlíðarskóla, líkt og í fyrra og var mjög gaman hjá hópnum, pizzuveisla, kvöldvaka, hugvekja og sleep-over. Daginn eftir er morgunmatur, sundferð, hressing og svo haldið í Neskirkju þar sem úrslitakeppnin hefst kl.13.

– Foreldrar, ættingjar, TTT- félagagar og vinir eru mjög velkomnir á keppnirnar. Í boði er hressing fyrir alla og ekki er amalegt að hafa gott stuðningslið. En pizzupartýiið, kvöldvakan og gistingin er bara í boði fyrir liðin og leiðtoga þeirra.

Þátttökugjald er 10.000 kr. á hvert barn, matur og gisting innifalin, hefðin hefur verið að viðkomandi kirkjur greiði fyrir sína fulltrúa.

JESÚS LIFIR SENIOR
Upp hefur komið sú hugmynd að halda Jesús lifir fyrir unglinga í 8.-10. bekk og kemur það til að ósk keppenda sem eru að vaxa upp úr keppninni. Fyrirkomulagið yrði það sama og hjá yngri aldurshópnum, hvert æskulýðsfélag myndi skipa 3-4 manna lið og mætti senda stuðningslið með í keppnina. Hugmyndin er að halda þá keppni 25.-26. febrúar í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Viljum við nú kanna hvort grundvöllur sé fyrir því og leitum eftir áliti þeirra sem sjá um æskulýðsstarf, lumið þið á snillingum í ykkar kirkjum?