Safnað á landsmóti

Safnað á landsmóti

„Hér eru 500 krakkar og þau leggja öll sitt af mörkum og ef allir leggja sitt af mörkum þá getum við gert eitthvað stórkostlegt, segir Konný Björg úr Digraneskirkju. Hún er ein af 500 unglingum og leiðtogum sem sækja landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar á Selfossi um helgina og taka þátt í söfnun handa jafnöldrum sínum sem eiga um sárt að binda í Japan.

„Ég er komin til að hjálpa börnunum í Japan sem hafa misst foreldra sína og þurfa hjálp,“ segir Edda Björg sem erfrá Vopnafirði og vinkona hennar bætir við: „Við hjálpum til að láta gott af okkur leiða … til að fá bros.“

Það er mikilvægt fyrir unglingana að hjálpa fólki í neyð

Toshiki Toma er prestur innflytjenda. Hann tók þátt í dagskrá í Krónunni í miðbæ Selfoss ásamt þremur samlöndum sínum. „Krakkarnir eru með bauk og biðja um samskot. Á meðan bjóðum við fólki upp á að fá nafnið sitt eða uppáhaldsorð skrifað á japönsku og upp á origami,“ segir Toshiki.

Hann bætir við: „Mér finnst þetta þýða rosalega mikið, ekki bara fjáröflunin, heldur er mikilvægt fyrir unglingana að gera eitthvað fyrir fólk í neyð. Ég óska þess að þetta verði ekki bara að færa peninga til þeirra í Japan heldur tækifæri til að skapa samskipti milli unglinga á Íslandi og barna í Japan. Það skiptir miklu máli,“ segir Toshiki.

Í kvöld verður verður hæfileikakeppni æskulýðsfélaganna og ball með Stuðlabandinu. Landsmótinu lýkur á morgun með messu í Selfosskirkju. Þar þjóna sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson og sr. Ninna Sif Svavarsdóttir. Sr. Óskar Hafsteinn prédikar og hljómsveitin Tilviljun? leikur og leiðir sönginn í messunni. Messunni lýkur með því að hver þátttakandi á landsmótinu fær fararblessun áður en þau halda til síns heima.