500 unglingar og leiðtogar eru samankomnir á landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar sem var sett á Selfossi fyrr í kvöld. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, setti landsmótið og þakkaði unglingunum fyrir gott starf og góðan hug: „Nú veit ég af góðverkahelgi landsmótsins. Þar munuð þið leggja mikið af mörkum til þeirra sem treysta á aðstoð. Ég veit að hérna inni eru mörg gullhjörtu, sem bera umhyggju fyrir öðrum og láta gott af sér leiða.“
Unglingar á landsmótinu ætla að safna peningum til styrktar jafnöldrum sínum í Japan sem eiga um sárt að binda eftir jarðskjálftann fyrr á þessu ári. Unglingarnir í æskulýðsfélaginu Kýros á Vopnafirði hófu söfnun í síðustu viku og þau afhentu 60000 krónur við setninguna. Unglingarnir frá Vopnafirði útdeildu líka rauðum hjörtum sem á stóð: „Ég er vinur“. Vinavikan á Vopnafirði hefur þannig breiðst út um allt land í gegnum landsmótið á Selfossi.
Biskup og leiðtogar frusu við setninguna
Í setningarræðu sinni tók Karl biskup ásamt leiðtogum á landsmótinu þátt í flash-mob á vegum LÆK og fraus í tæpa mínútu við mikinn fögnuð unglinganna. LÆK er leiklistarstarf æskulýðsstarfs kirkjunnar. Það hefur starfað í sumar og sett upp gjörninga á 17. júní og menningarnótt sem tókust vel.
Tugir sjálfboðaliða starfa á landsmótinu
Tugir sjálfboðaliða hafa undirbúið landsmótið í eitt ár og starfa á því. „Án þeirra gætum við ekki haldið svona veglegt landsmót,“ segir Rakel Brynjólfsdóttir, landsmótsstjóri, sem er stolt af fólkinu sínu.
Í kvöld verður kvöldvaka og að henni lokinni er á dagskrá sundlaugarpartý í sundlaug Selfoss. Þar mun Ingó syngja og leika fyrir unglingana á landsmótinu. Á sama tíma stendur NeDó Sport fyrir íþróttadagskrá.