Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar verður haldið á Selfossi helgina 28. – 30. október 2011.

Í október er æsku landsins stefnt á Selfoss! Selfoss er 6.500 manna bær í sveitarfélaginu Árborg. Gist verður í skólum og dagskrá mun fara fram í íþróttahúsinu og kirkjunni. Bæjarstjórn Árborgar býður unglinga kirkjunnar sérstaklega velkomna og hlakkar til að sjá ungmennin setja svip sinn á bæinn.

Mótið er góðgerðarmót líkt og í fyrra. Að þessu sinni verður safnað fyrir fólkið í Japan sem á um sárt að binda vegna þeirra hamfara sem þar urðu síðastliðið vor.

Dagskrá landsmóts verður fjölbreytt og skemmtileg þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Farið verður margvíslegar leiðir til þess að skapa verðmæti sem nýtist til söfnunarinnar. Hljómsveitin Tilviljun sér um tónlistina á mótinu.  Undirbúningur hópastarfsins er nú þegar kominn vel á veg.

Í fyrra tóku rúmlega 600 ungmenni þátt í mótinu. Það verður spennandi að sjá hvort það þátttökumet verði slegið 🙂

Myndir frá landsmótinu á Akureyri 17. – 19. október 2010.

Sjáumst hress á landsmóti æskulýðsfélaga.

Landsmótsnefnd.