Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar hefur tekið til starfa. Fyrsti fundur stjórnarinnar var haldinn í Seltjarnarneskirkju þriðjudaginn 28. febrúar síðastliðinn. Allmörg mál voru þar á dagskrá og að mörgu að huga þegar slíku starfi er ýtt úr vör.

Stjórnin er skipuð þannig að formaður er Arna Grétarsdóttir prestur í Seltjarnarneskirkju, ritari er Anna Hulda Einarsdóttir kennari, gjaldkeri er Sjöfn Þór sóknarprestur á Reykhólum og meðstjórnendur eru undirritaður og Jónas Margeir Ingólfsson menntaskólanemi. Varamenn í stjórn, í þeirri röð sem þeir verða kallaðir inn, eru: Sólveig Halla Kristjánsdóttir, Þórunn Áslaug Harðardóttir, Gunnfríður Katrín Tómasdóttir, Elín Svava Ingvarsdóttir og Jón Ómar Gunnlaugsson.

Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar mun starfa náið með æskulýðssamböndum og félögum kirkjunnar sem og fræðslusviði Biskupsstofu og öðrum sem koma að boðun fagnaðarerindisins til æsku landsins. Vonum við í stjórninni að starf nýs sambands verði til að efla ennfrekar það góða starf sem unnið er á akri æskunnar í Þjóðkirkjunni.