Hópur áhugafólks úr barna- og unglingastarfi kirkjunnar sem unnið hefur að stofnun landssambands um nokkurt skeið boðaði til stofnfundar Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, ÆSKÞ, síðastliðið föstudagskvöld, 3. febrúar í Neskirkju. Hátt í 70 manns sóttu fundinn. Að lokinni skráningu og kvöldverði var gengið til fundarstarfa klukkan 19:30. Fyrir fundinum lá tillaga frá undirbúningshópi þess efnis að stofnað yrði ÆSKÞ en áður en að þeirri afgreiðslu kom var flutt kveðja frá biskupi Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni og Erlendur Kristjánsson deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu flutti ávarp.

Í kveðju biskups sagði m.a.:

Það er mér mikil gleði og bænheyrsla að nú skuli stofnað Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar. Unga fólkið sem kemur að æskulýðsstarfi í kirkjunni eignast þar samstarfsvettvang til sameiginlegra verkefna, uppörvunar og eflingar í lífi og starfi. Og þar eignast unga fólkið í Þjóðkirkjunni málssvara, bæði inn á við, gagnvart stofnunum og starfsgreinum kirkjunnar, og út á við gagnvart þeim aðilum á landsvísu sem sinna málefnum unglinga.

 

Æskulýðsmál kirkjunnar er vaxtarsproti sem hlynna þarf að. Kirkjan verður að beita sér með nýjum, markvissari hætti í því starfi og setja það miklu ofar á forgangslistanum en nú er. Biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja vill leitast við að veita leiðsögn og stuðning í trú og sið á vettvangi safnaða og stofnana sinna. Það starf sem unnið er meðal barna og unglinga gegnir þar lykilhlutverki og er kirkjunni lífsnauðsyn að styrkja það og efla, og uppörva, fræða og styðja þau sem að því starfi vinna.

Erlendur bar fundinum kveðju Æskulýðsráðs ríkisins og tilkynnti að ráðið hefði ákveðið að styrkja stofnun sambandsins með 350.000 króna styrk sem yrði afhentur þegar sambandið yrði formlega komið á blað. Þá benti Erlendur á mikilvægi þess að ungt fólk sem tæki þátt í kirkjulegu starfi ættu með sér samtök sem væru um leið málssvari þess mikilvæga starfs sem unnið væri með börnum og unglingum. Erlendur óskaði fundarmönnum til hamingju og óskaði hinu nýja landssambandi velfarnaðar.

aesk200Þá var gengið til fundarstarfa, stofnun sambandsins samþykkt samhljóða, tilgangur og lög hins nýja sambands kynnt og eftir nokkra umræðu samþykkt samhljóða. Tíu manna stjórn nýs sambands var kjörin, þ.e. fimm manna aðalstjórn og fimm manna varastjórn. Formaður er Arna Grétarsdóttir prestur í Seltjarnarneskirkju, ritari er Anna Hulda Einarsdóttir kennari, gjaldkeri er Sjöfn Þór sóknarprestur á Reykhólum og meðstjórnendur eru Þorvaldur Víðisson prestur í Vestmannaeyjum og Jónas Margeir Ingólfsson menntaskólanemi.

Í tilefni stofnunnar æskulýðssambandsins færði formaður ÆSKR, Ólafur Jóhann Borgþórsson guðfræðinemi sambandinu Biblíu til eignar með árituninni: ,,Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að Orði þínu” (Sálmur 119:9). En ÆSKR verður einn nánasti samstarfsaðili hins nýstofnaða ÆSKÞ og ljóst að það er nýju sambandi mikill styrkur af öflugri systur í höfuðborginni!

Stjórnin hefur þegar hafið störf en hennar fyrsta verkefni er að afla fjár til starfsins því að ljóst er að lítill kraftur verður í æskulýðssambandi sem hefur ekkert fjármagn á bak við sig.

Félagsaðild að æskulýðssambandinu getur hvert það æskulýðsfélag, starfshópur eða áhugahópur um æskulýðsstarf sem starfar á vettvangi þjóðkirkjunnar fengið. Nánari upplýsingar um tilhögun á umsóknum til félagsaðildar verða kynntar fljótlega.

Með stofnun æskulýðssambandsins lauk vinnuferli sem staðið hefur í nokkurn tíma en um leið má segja að ferlið hefjist fyrir alvöru. Það eru spennandi tímar framundan í sívaxandi æskulýðsstarfi á kirkjulegum vettvangi og verður gaman að fylgjast með næstu skrefum æskulýðssambandsins.