ÆSKÞ stendur fyrir árlegu janúarnámskeiði þann 13. janúar næstkomandi. Að þessu sinni verður boðið upp á námskeið annars vegar í skyndihjálp og hins vegar í viðburða – og leikjastjórnun fyrir leiðtoga í barna- og æskulýðsstarfi.

Við munum byrja daginn á léttum morgunverði kl. 10:30.

Fyrri hluti dagsins er tileinkaður skyndihjálparnámskeiðinu sem hefst stundvíslega kl. 11:00. Það er ákaflega mikilvægt fyrir alla þá er starfa í barna- og unglingastarfi að kunna til verka í skyndihjálp. ÆSKÞ hefur reglulega staðið fyrir skyndihjálparnámskeiði og því tilvalið fyrir leiðtoga að annað hvort endurnýja skírteinin sín eða að fá skírteini í fyrsta sinn.

Námskeiðið er 4 klst. Leiðbeinandi er Sigríður Ólafsdóttir hjá Rauða krossinum á Íslandi.

Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun og öðlast öryggi, færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum með því að beita einföldum aðferðum í skyndihjálp á öruggan hátt. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

Seinni hluti námskeiðsins er viðburða – og leikjastjórnun fyrir leiðtoga í barna- og æskulýðsstarfi. Leiðbeinandi er Jörgen Nilson, viðburða- og verkefnastjóri Dalama Camp. Það er einnig mikilvægt fyrir leiðtoga í barna – og unglingastarfi að kunna að leika sér og kenna öðrum að leika sér. Námskeiðið er í formi fyrirlesturs, fræðslu, verkefnavinnu og hópeflisleikja.

Í hádeginu verður boðið upp á heita máltíð. Þá verður eitthvað gott með kaffinu og létt nasl í boði yfir daginn. Vinsamlega látið vita ef fólk er með fæðuóþol eða ofnæmi og eins ef einhver er á grænmetisfæði eða vegan.

Dagskráin hefst kl 10:30 og lýkur kl. 19:00, laugardaginn 13. janúar 2024 og fer fram í Neskirkju í Reykjavík. Gengið er inn kjallaramegin. Þeir sem eru að koma langt að geta sótt um ferðastyrk.

Ath! Skyndihjálparnámskeiðið hefst stundvíslega kl. 11:00.

Skráning stendur til hádegis 12. janúar og fer fram á aeskth@aeskth.is

Janúarnámskeið er fyrir alla leiðtoga, æskulýðsfulltrúa, sem og djákna og presta sem

hafa áhuga á æskulýðsmálum.

Síðustu ár hafa verið erfið fyrir barna og unglingastarf og við finnum fyrir því víða í samfélaginu. Það er mikilvægt að við sem stöndum að barna og unglingastarfi hittumst og stillum saman strengi æskulýðsstarfi til heilla.

Verð er 12.000kr fyrir aðila að ÆSKÞ en 14.000kr fyrir aðra.