Live Landsmót verður haldið laugardaginn 14. nóvember. Við hlökkum til að verja deginum með ykkur og vonum að þátttaka leiðtoga og annara sem sjá um barna og unglingastarf verið ykkur innblástur til þess að gera enn meira með ykkar hópum í gegnum netmiðlana. Við vonum að við getum lært hvort af öðru og eflt okkur þannig í því að nota tæknina til að nálgast starfið okkar.

Ef þið eruð með hugmynd af leik eða hópastarfi þá endilega sendið okkur línu á aeskth@aeskth.is

Frekari upplýsingar um mótið:

Fyrir hverja? 

Live Landsmót er stendur öllum æskulýðsbörnum landsins til boða. Við hvetjum alla þá presta, djákna, æskulýðsfulltrúa og leiðtoga sem kom að barna og unglingastarfi og/eða fermingarfræðslu að taka þátt með sínum hóp!

Hvenær?

14. nóv. Sjá dagskrá

Hvar?

Á netinu, í gegnum fjarfundarbúnað – en einnig í heimakirkju/safnaðarheimili

Hvernig?

Vegna fjöldatakmarkana og sóttvarnar ráðstafana er víða ekki hægt að hittast í kirkjunum, en dagkráin er sniðin þannig að þátttakendur geta tekið þátt heiman frá sér án þess að safnast þurfi í hópa. Umsjónarmaður starfsins þarf bara að vera búinn að safna saman netföngum og símanúmerum þátttakanda.

Á þeim stöðum þar sem hægt er að koma saman með hópinn, er þó upplagt að bjóða unglingunum að koma og njóta dagsins í kirkjunni/safnaðarheimilinu.

Hvers vegna?

Félagsleg einangrun unglinga hefur lengi verið vandamál á Íslandi, hér á landi er til að mynda ein hæsta sjálfsvígstíðni unglinga í Evrópu. Í ástandi líku því sem við höfum kynnst á undanförnum mánuðum er ljóst að hætta er á að andlegri heilsu muni hraka. Það sem við getum gert er að minna unga fólkið okkar á að við erum til staðar fyrir þau og þrátt fyrir að við getum ekki hist með hefðbundnum hætti, þá getur það glatt og lífgað upp á tilveruna t.d. með því að deila deginum með örðum í gegnum fjarfundarbúnað.

Hvað þarf ég að gera?

Heyrðu í þínum hóp og bjóddu þeim að vera með, fáðu netföngin þeirra og símanúmer. Vertu hvetjandi og mundu að taka þennan dag frá svo þú getir einnig tekið virkan þátt með þeim. Skráðu þig og hópinn þinn til þátttöku með því að senda tölvupóst á skraning@aeskth.is svo við getum tryggt að þú fáir allar nauðsynlegar upplýsingar. Á þessu stigi málsins þurfum við ekki neinar aðrar upplýsingar frá þér en að þú hyggist vera með. Við munum hins vegar í framhaldinu biðja þig um að áætla fjölda þátttakenda og senda okkur netfangalista.

Hvað kostar þetta?

Live Landsmót er þátttakendum að kostnaðarlausu – hvort sem sóknin er meðlimur í ÆSKÞ eða ekki. Dagskráin verður fjölbreytt og skemmtileg og klárlega þess virði að vera með.

Er þetta í alvöru mikilvægt?

Já – það er ákaflega mikilvægt að við leitum leiða til að mæta unga fólkinu okkar og ástandið núna er engin afsökun. Vinnum saman að því að skapa góða stemningu og eiga saman gott rafrænt landsmót.