Farskóla leiðtogaefna 2012-2013 í Reykjavíkur – og Kjalarnessprófastsdæmum var slitið með hátíðarsamveru í Víðistaðakirkju í gær. Í vetur hafa 38 unglingar stundað nám í skólanum undir stjórn Sigríðar Rúnar og Guðjóns Andra, þar af voru 7 nemendur að klára annað árið og þar með að útskrifast úr farskólanum. Það er sérstaklega gleðilegt hvað hópurinn í vetur hefur verið fjölmennur og virkur. Farskólinn sem hefur verið í gangi síðan 2004 er samstarfsverkefni Æskulýðsnefndar Kjalarnessprófastsdæmis, ÆSKR, Biskupsstofu og ÆSKÞ hér á höfuðborgarsvæðinu, en farskólinn fer fram víðar um landið og hefur unnið sér fastan sess í leiðtogafræðslu þjóðkirkjunnar. Námskeiðið er miðað við áhugasama unglinga á aldrinum 15-17 ára sem aðstoða í starfi eða hafa hug á að starfa með börnum og/eða unglingum innan kirkjunnar.

[lightbox_image size=“full-third-short“ image_path=“https://www.aeskth.is/wp-content/uploads/2013/03/hátíðarsamvera2013.jpg“ lightbox_content=“https://www.aeskth.is/wp-content/uploads/2013/03/hátíðarsamvera2013.jpg“ group=““ description=““]

Á samverunni í gær sáu unglingar um prédikun, helgileik, ritningarlestra, undirspil, söng, auk þess að aðstoða við altarisgöngu og baka með kirkjukaffinu. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi, þjónaði fyrir altari og leiddi stundina. Foreldrar og aðdáendur Farskólans fjölmenntu í Víðistaðakirkju og áttu góða stund með duglegum ungleiðtogum kirkjunnar.

Markmið með farskóla leiðtogaefna er að styrkja faglegt starf með hæfum og góðum leiðtogum og viðfangsefni námskeiðsins er m.a. fræðsla um kristna trú, kirkjuna, starf hennar og fleira.  Um leið og áhersla er lögð á að sinna hverjum þátttakanda og uppbyggingu hvers og eins er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag í hópnum, meðal annars með áherslu á helgistundir.

Farskólinn er ætlaður sem stuðningur við söfnuðina í því að byggja upp leiðtoga og því er mikilvægt að samhliða farskólanum sé leiðtogaefnunum sinnt af þeim sem bera ábyrgð á æskulýðsstarfi í söfnuðinum og að þeim séu falin verkefni við hæfi í starfinu svo þau fái þjálfun í sínum heimasöfnuði samhliða námskeiðinu.

Skólastjóri Farskólans að þessu sinni var Sigríður Rún Tryggvadóttir, guðfræðingur.