Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 17.-25. mars 2012

Á ári hverju í kringum 21.mars er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en 21.mars er er alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Í ár er vikan frá 17.-25. mars og er slagorðið að þessu sinni „Opnaðu augun! Fordómar leynast víða.“

Birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið – allt frá fordómum til ofbeldisverka.Það er áhyggjuefni hversu mjög hefur borið á fordómum, útlendingafælni og þjóðernishyggju í umræðunni, ekki síst eftir efnahagshrunið. Það er staðreynd að íslenskt samfélag er fjölmenningarlegt og því verður ekki breytt.

ÆSKÞ tók þátt í viðburðinum og á vegum Þjóðkirkjunnar mættu ungmenni frá Digraneskirkju, Adrenalín gegn rasisma frá Laugarneskirkju, Ice-step danshópur og Ten-Sing krakkar úr KFUM og K.

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti er árlegt samstarfsverkefni sem Mannréttindaskrifstofa Íslands heldur utan um, og samstarfsaðilar í ár voru ÆSKÞ, Rauði kross Íslands, ÍTR, Félag ungra jafnréttissinna og Jafnréttisnefnd SHÍ.

Mannréttindaskrifstofa hélt utan um vitundarvakningarviðburð í Smáralind á föstudagseftirmiðdeginu þar sem hundrað ungmenni á aldrinum 13-19 ára frá RKÍ, félagsmiðstöðvum ÍTR og Þjóðkirkjunar dreifðu bæklingum um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti og fræddu fólk um málefnið.

Ýmislegt annað var í boði eins og að taka þátt í lukkuhjóli, setja fingrafar sitt á listaverk, leika sér í Mannréttinda-Twisterspili og skoða ljósmyndir frá Pólska Ljósmyndarafélaginu á Íslandi.

Rithöfundurinn og grínistinn Sóli Hólm kynnti svo fjögur bráðskemmtileg skemmtiatriði fyrir krökkunum og gestum Smáralindar sem öll voru ánægð með danshópinn ICE Step, Melkorku Rós Hjartardóttur sigurvegara Söngkeppni Samfés 2012, stúlknahljómsveitina Að Eilífu Einar og dansarana Emmanuel og Sudip.

Mikill áhugi var á uppákomunni hjá gestum Smáralindar sem mörg hver fengu boli merkta Evrópuvikunni og fræddust um hversu mikilvægt það er að útrýma kynþáttafordómum – og misrétti. Myndir má finna hér:

https://picasaweb.google.com/115001301440304026995/2012EvropuvikaSmaralind