Gaman og alvara ræður í senn ríkjum hjá þeim rúmlega 500 unglingum sem koma saman á Selfossi um helgina á Landsmóti Æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar. Krakkarnir koma víðs vegar að af landinu, allt frá Reyðarfirði til Hvammstanga, Akureyri og Árbæ og taka allir þátt í fjölbreyttu unglingastarfi kirkjunnar um allt land.

Landsmótið í ár vekur athygli á aðstæðum unglinga í Japan og líðan þeirra eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna í ár. Íslenskir unglingar vilja leggja sitt af mörkum til að hjálpa jafnöldrum sínum sem búa við óöryggi og streitu á hamfarasvæðunum og tekur dagskrá landsmótsins mið af því. Áfallastreituröskun eftir erfiða atburði getur lýst sér í kvíða, svefnleysi og vanlíðan en besta leiðin til að vinna gegn slíkri röskun er að styðja börn í því að njóta sín við leik í streitulausu umhverfi, svo góðar minningar skapist sem ýti hinum erfiðu til hliðar.

Í því sambandi hefur landsmótið samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar og japönsku góðgerðarsamtökin Gullhjörtun (Hearts of Gold) en þátttakendur hafa unnið við ýmisskonar fjáröflun heima í héraði til þess að undirbúa landsmótið. Prestur innflytjenda, sr. Toshiki Toma er sértakur ráðgjafi og tengiliður landsmótsins við Japan og japönsku samtökin.

Japansþema svífur einnig yfir vötnum í hópastarfi landsmótsins en m.a. verður boðið upp á sushi-gerð, björgunarsveitarhóp, hip-hop, japanskan metal, manga-hóp, hóp um japanska tísku, smíðahóp, spilahóp og bökunarhóp.

Fjölbreytt skemmtidagskrá verður einnig á landsmótinu, t.d. stjórnar Ingó veðurguð sundlaugapartý og Ari Eldjárn verður með uppistand. Mótinu lýkur með messu í Selfosskirkju með þátttöku unglinganna.