Hressir krakkar í söfnun á Glerártorgi

Um 700 unglingar, sjálfboðaliðar og leiðtogar tóku þátt í landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar um helgina. Frábær stemming var á mótinu og greinilegt að dagskrá mótsins sem og skipulag var til fyrirmyndar.  Tveir þátttakendur mótsins höfðu þetta að segja um upplifun sína:

„Þetta var geðveikt, ótrúlega gaman og frábær upplifun“ segja Lára Ósk Viðarsdóttir og Sólbjörg Jóna Sigurpálsdóttir.

Hvað voruð þið að gera á mótinu?
– Lára valdi Bollywood dans og Sóla valdi hárgreiðslu. Annað sem var hægt að velja var m.a. leiklist, brjóstsykursgerð og sjálfsvörn. Sumir fóru líka á Glerártorg að selja heimatilbúna hluti til styrktar börnum á Indlandi.

Hvað var skemmtilegast á mótinu?
– Laugardagskvöldið. Þá var hæfileikakeppni og svo ball. Geðveikt ball.

Hvernig gekk söfnunin sem var í gangi?
– Við söfnuðum um 500.000 kr. og erum þannig búin að frelsa um 100 þrælabörn á Indlandi.

Hvað hafið þið meira að segja um mótið?
– Við kynntumst fullt af fólki og þetta er alveg frábær viðburður, félagslega séð. Mótið var mjög vel skipulagt og undirbúið. Líka „f
frábært“ hvernig fólk vakti okkur á morgnanna…
(úr Landspóstinum)

Mikið var fjallað um mótið í fjölmiðlum landsins enda var þetta fjölmennasta landsmót kirkjunnar síðan ÆSKÞ tók til starfa.  Styrktaraðilar mótsins voru fjölmargir og má þar nefna Kirkjumálasjóð sem ávallt styrkir mótið rausnarlega, Akureyrarbæ, Mylluna, Kexsmiðjuna, Blikkrás ehf, Verkmenntaskólann á Akureyri, Átak heilsurækt ehf, Jón Óðinn Waage júdóþjálfara, Gulla Boot Camp þjálfar, Yesmine Olsson, Sævar Poetrix, Glerártorg, Vodafone, Nova, Ölgerðina Egil Skallagrímsson, Mjólkursamsöluna, Kjarnafæði og fjölmarga sjálfboðaliða sem allir gáfu vinnu sína í þágu málefnis mótsins: Að bjarga þrælabörnum á Indlandi úr skuldaánauð.  ÆSKÞ þakkar innilega fyrir allan þennan góða stuðning.

Einnig þakkar sambandið prestum, djáknum og leiðtogum æskulýðsfélaganna fyrir alla þá vinnu sem þau inntu af hendi á mótinu og að sjálfsögðu unglingunum fyrir prúðmennsku og góð viðkynni.